Barnaverndarlög

Mánudaginn 06. júní 2011, kl. 16:16:37 (0)


139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

barnaverndarlög.

56. mál
[16:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja umræðuna, það er margt sem liggur fyrir. Við ræðum afskaplega mikilvægt mál og mjög mikilvægt hvernig til tekst í lagasetningunni og sérstaklega í framkvæmd laganna. Málið er búið að vera nokkuð lengi til umræðu hjá Alþingi og er það vel því að það þarf að ræða vel. Rætt hefur verið við marga hagsmunaaðila og sérfræðinga á þessu sviði.

Barnaverndarlög eru náttúrlega sá hluti lagasafnsins sem snýr kannski að viðkvæmustu hlutum í samfélaginu og fer inn fyrir veggi heimilisins, ef má orða það svo. Þess vegna eru þetta oft og tíðum erfið mál og reynast alltaf erfið og stundum mjög erfið og vara ef til vill yfir áratugi og lengur. Því skiptir miklu hvernig til tekst.

Ég vona að hv. félagsmálanefnd hafi fundið þá agnúa á því frumvarpi sem fram var lagt og það sé orðið núna eins gott og maður vonast til að það geti orðið, það má auðvitað alltaf bæta málin.

Það sem ég hef haft kannski mestar áhyggjur af er að þjóðfélagsgerðin er að breytast. Það eru mjög miklar sviptingar í samfélaginu, fjölskyldan er að breytast, hin hefðbundna fjölskylda, pabbi og mamma gift, eigandi tvö börn, er horfin eða hún er sem sagt ekki orðin eins stöðluð og hún var, það eru komnar alls konar fjölskyldugerðir, svo maður tali nú ekki um fyrir kannski hundrað, tvö hundruð árum þegar stórfjölskyldan var afi, amma o.s.frv. Miklar breytingar hafa orðið, nú er mikið um einstæða foreldra, samkynhneigðir foreldrar eiga börn o.s.frv. Það er orðin miklu víðtækari flóra af fjölskyldum sem við þurfum að takast á við og það er í sjálfu sér ekki mikill vandi.

Svo hefur aukist að afi og amma taki börn að sér vegna náms eða vegna ýmissa atvika hjá börnunum. Inn í þetta kemur, því miður, og það er eitthvað sem við þurfum líka að horfast í augu við, hin mikla aukning á ýmiss konar fíkn, eiturlyfjafíkn, áfengisfíkn o.s.frv., sem hefur rústað mörgum heimilum og kemur aðallega niður á börnunum, því miður. Því þarf löggjafinn að taka mið af þegar hann er að smíða svona löggjöf. Því má segja að hver fíkill sem á börn geti skapað aðstæður sem leiði til barnaverndarmála vegna þess að fíkill er, eins og kunnugt er, kannski ekki í færum til þess að sinna börnum svo að vel sé og sómi sé að. Þá lenda börnin oft eða stundum hjá vandamönnum, afa og ömmu og öðrum slíkum, sem þarf þá að taka mið af í svona löggjöf.

Nefndin tók mið af því að færa meiri ábyrgð yfir á þær fjölskyldur sem standa barninu nærri og það finnst mér vera mjög jákvætt. Það er miklu betra fyrir barn sem lendir í svona ógöngum innan fjölskyldunnar að það fari til fólks sem það kannast vel við og er í tengslum við.

Ég vona að þetta frumvarp sé gott. Það sem ég hef enn áhyggjur af er sá mikli huliðshjálmur sem hvílir yfir þessum málum eðlilega. Ég hef minnst á það bæði í 1. og 2. umr. að sá huliðshjálmur er náttúrlega til þess að vernda persónulegar upplýsingar sem koma í ljós í svona málum en getur jafnframt verið skálkaskjól fyrir eitthvað sem misjafnt getur gerst, eins og Breiðavíkurmálið sýnir okkur. Við þurfum stöðugt að vera á varðbergi fyrir því að slíkt gerist ekki og ég hygg að menn séu orðnir ansi vel vakandi fyrir slíkum vandamálum þó að menn hafi ekki verið tilbúnir til að lyfta þeim huliðshjálmi nóg þannig að slík mál geti komist upp.