Hagþjónusta landbúnaðarins o.fl.

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 19:12:33 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

Hagþjónusta landbúnaðarins o.fl.

572. mál
[19:12]
Horfa

Frsm. sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1531, um mál 572, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Hagþjónustu landbúnaðarins, nr. 63/1989, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, ábúðarlögum, nr. 80/2004, og lögum um búfjárhald, nr. 103/2002.

Með frumvarpinu er lagt til að Hagþjónusta landbúnaðarins verði lögð niður og verkefni hennar færð undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Er ætlunin samkvæmt frumvarpinu að ráðherra útvisti verkefni er varða hagþjónustu við landbúnað til hæfra aðila í gegnum þjónustusamninga. Í frumvarpinu er framangreind tillaga útfærð á þann hátt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er falin yfirstjórn með hagþjónustu við landbúnað í stað Hagþjónustu landbúnaðarins. Þá er gerð breyting á þeim verkefnum sem teljast munu til hagþjónustuverkefna og ráðherra heimilað að útvista þau til Landbúnaðarháskóla Íslands, Hagstofu Íslands, Háskóla Íslands eða annars hæfs aðila. Ákvæðum um gjaldtöku vegna veittrar þjónustu er breytt í því skyni að þeir sem fara með hagþjónustuverkefni geti innheimt tekjur fyrir veitta þjónustu og ráðherra heimilað að kveða nánar á um rekstur og tilhögun verkefnanna með reglugerð. Að lokum eru verkefni sem Hagþjónustan hefur haft samkvæmt öðrum lögum færð í hendur þeirra aðila sem fara munu með hagþjónustuverkefni.

Aðeins ein athugasemd var gerð við ákvæði frumvarpsins. Háskólinn á Akureyri bendir á að ástæðulaust sé að nefna í 5. gr. frumvarpsins að Háskóli Íslands skuli koma til greina til að sinna hagþjónustuverkefnum. Er það álit háskólans að nær væri að benda sérstaklega á landsbyggðarháskóla eins og Háskólann á Hólum eða Háskólann á Akureyri sem eru í landbúnaðarhéruðum og hafa mjög látið sig varða rannsóknir er snerta landsbyggðina og atvinnuvegi hennar.

Nefndin ræddi sérstaklega athugasemd Háskólans á Akureyri við 5. gr. frumvarpsins. Var á það bent að mögulega gætu aðrir háskólar unnið að hagþjónustuverkefnum. Var t.d. nefnt að Háskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum kynnu mögulega að hafa áhuga og faglegan styrk til að takast á við slík verkefni. Álit nefndarinnar er að gæta verði faglegs jafnræðis og byggðahagsmuna við úthlutun verkefna til háskólastofnana. Af þeim sökum gerir nefndin þá tillögu til breytingar að Háskóli Íslands verði ekki sérstaklega tilgreindur sem aðili sem ráðherra sé heimilt að gera samninga við um hagþjónustuverkefni heldur látið við það sitja að nefna Landbúnaðarháskóla Íslands eða aðra háskóla og Hagstofu Íslands eða aðra hæfa aðila.

Í ljósi alls framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Í stað orðanna „Hagstofu Íslands, Háskóla Íslands eða annan hæfan aðila“ í 5. gr. komi: eða aðra háskóla og Hagstofu Íslands eða aðra hæfa aðila.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Einar K. Guðfinnsson, Helgi Hjörvar, Sigurður Ingi Jóhannsson, Björn Valur Gíslason, Jón Gunnarsson, Róbert Marshall og Atli Gíslason.