Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 20:23:23 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[20:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er margt sem kemur upp í hugann þegar til umræðu er frumvarp til laga um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þó að frumvarpið sé sem slíkt frekar lítið í sniðum þá snerta fjölmörg atriði þjóðkirkjuna sem vert er að ræða eins og hv. þm. Birgir Ármannsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafa gert ágætlega fyrr í umræðunni. Ég vil taka það fram að ég gat ekki verið viðstaddur afgreiðslu þessa máls frá hv. allsherjarnefnd og skrifaði því ekki undir það nefndarálit sem liggur fyrir, en lýsi því hins vegar hér með yfir að ég styð meginefni þessa frumvarps og mun greiða því atkvæði mitt.

Kjarni málsins er sá að verið er að leggja til að fellt verði inn í lögin nýtt bráðabirgðaákvæði þar sem lagt er til að þegar embætti sóknarprests eða annars prests þjóðkirkjunnar losnar af þeim ástæðum að viðkomandi lætur af embætti eða forfallast megi biskup skipa tímabundið annan prest til að gegna embættinu. Miðað er við að skipan í embætti geti aldrei verið til lengri tíma en eins árs í senn. Ef ekki er að ári liðnu búið að sameina umrætt prestsembætti öðru prestsembætti er heimilt að skipa aftur í embættið, en ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að það sé gert til skemmri tíma en eins árs. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að ákvæðið gildi lengur en til 1. janúar 2015, þá er miðað við að jafnvægi hafi skapast í fjármálum kirkjunnar. Kjarni þessa máls er sá að þetta frumvarp er til komið að frumkvæði kirkjuráðs sem fór þess á leit við hæstv. ráðherra með bréfi 23. nóvember 2010 að frumvarpið yrði flutt í samræmi við frumvarp sem samþykkt var á kirkjuþingi 2010 og lýtur að viðbrögðum við þeirri hagræðingarkröfu í fjármálum sem þjóðkirkjan stendur frammi fyrir. Mér finnst eðlilegt við slíkar aðstæður að þingið og hæstv. ríkisstjórn svari kalli kirkjunnar þegar hún óskar eftir því og að ráðist verði í lagabreytingu til að þeim markmiðum verði náð. Ég sé enga ástæðu til annars en að styðja slík mál.

Ég vildi geta þess úr því að ég undirrita ekki það nefndarálit sem hér liggur fyrir að ég styð málið þrátt fyrir að hafa ekki getað verið viðstaddur afgreiðslu þess.

Eins og komið hefur fram í umræðunni er margt áhugavert og ástæða til að ræða það í tengslum við stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Það er rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi í ræðu sinni, að menn hafa þrengt meira og meira að fjárhag kirkjunnar í gegnum tíðina og töluverður niðurskurður hefur orðið til sóknanna. Ríkið er sífellt að taka meiri og meiri hluta í sinn vasa af sóknargjöldunum og það kemur niður á starfsemi safnaðanna. Það er svo sem ekki ný saga. Við sem höfum setið hér og fylgst með málefnum kirkjunnar höfum orðið þess áskynja að það er minna til skiptanna og hefur verið alveg frá því að efnahagshrunið varð og reyndar er sú saga töluvert lengri. Þetta hefur haft áhrif á störf safnaðanna.

Ég minnist þess t.d. þegar ég var formaður menntamálanefndar Alþingis og við fjölluðum um þá safnliði sem sú nefnd hefur til úthlutunar að á seinni árum formennsku minnar fóru nefndinni að berast erindi frá ýmsum félagasamtökum sem annaðhvort tengdust kirkjunni eða voru hluti af sóknunum. Yfir það heila voru það helst samtök sem héldu utan um tómstundastarf barna og unglinga sem leituðu til Alþingis um fjárstyrk til þess að standa undir starfsemi sinni, en það höfðu þau ekki gert áður. Þar er ýmiss konar starfsemi sem snýr að ýmsum þáttum, hvort sem það er kórastarf eða almennt kirkjustarf eins og þekkt er úr sunnudagaskólum eða laugardagsskólum eins og ég sótti þegar ég var ungur og bjó í Breiðholtinu. Síðast en ekki síst hafa þessar ungliðahreyfingar kirkjunnar, ef svo má segja, gegnt veigamiklu hlutverki gagnvart unglingum þessa lands og spilað býsna stórt hlutverk í að sinna forvörnum og aðstoða unglinga sem hafa villst af réttri braut til að ná tökum á lífi sínu og koma því í betra horf en verið hefur með aðstoð kirkjunnar og trúarinnar og þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Þetta starf kirkjunnar hefur gefist ákaflega vel, en því miður þarf að skera niður þegar fjármunirnir minnka og minna verður til skiptanna. Mín reynsla var því miður sú á þessum árum og þeim tíma er ég gegndi formennsku í menntamálanefnd og við fjölluðum um þessa safnliði að ákveðið var að skerða fjárframlög eða aðgengi þessara stofnana kirkjunnar til fjármuna.

Síðan er áhugavert að fjalla um stöðu þjóðkirkjunnar almennt og þá umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu upp á síðkastið. Ég furða mig svo sem ekkert á að svo hafi verið. Upp hafa komið ýmis mál sem hafa vakið athygli í samfélaginu og það ekki að ófyrirsynju vegna þess að þau hafa verið einkar óheppileg fyrir kirkjuna. Það er óhætt að segja að hún hafi átt í vök að verjast. Mér hefur fundist þeir sem hafa haft horn í síðu þjóðkirkjunnar og kirkjunnar svona almennt hafa gengið býsna langt í að nýta sér tækifærið til að fara í eins konar aðför að kirkjunni. Það þykir mér miður. Ég leyfi mér að halda því fram að menn hafi reynt með einum eða öðrum hætti að grafa undan þjóðkirkjunni í ljósi hneykslismála sem hafa verið til umfjöllunar. Það er miður því að kirkjan vinnur ákaflega gott starf í samfélagi okkar og þeir sem þar þjóna og starfa gera það að langmestu leyti af miklum heiðarleika og eiga þakkir skildar fyrir.

Einn af þessum þáttum snýr að samstarfi kirkju og skóla. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vék örlítið að því máli sem er mér reyndar líka skylt vegna þess að á sínum tíma kom það í minn hlut að fjalla um ný heildarlög um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla á þingi. Þar voru þessi mál mjög til umfjöllunar, þ.e. tengsl kirkjunnar og kristinnar trúar annars vegar og skólans hins vegar.

Það nýjasta sem kom upp í því máli var það sem ég hef kallað „siðaskiptin í Reykjavík“ sem mannréttindaráð Reykjavíkurborgar boðaði fyrir tilstilli borgarfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Besta flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er óhætt að segja að þessi siðaskipti í Reykjavík hafi fallið í grýttan jarðveg sem von er. Fyrir okkur sem stöndum utan borgarstjórnar Reykjavíkur virðist sá tillöguflutningur hafa gengið út á að rjúfa þau sterku tengsl sem hafa verið á milli kirkju og skóla um áratugaskeið í skólastarfi. (Gripið fram í.) — Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall hólið.

Árið 2008 tók ég innan þessara veggja, eins og kom fram áðan, þátt í að setja ný lög um grunnskóla sem formaður menntamálanefndar. Við meðferð þess frumvarps sem síðar var samþykkt var einmitt tekist á um hvort starfshættir skóla skyldu mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar, kristnum gildum og kristnu siðgæði eins og verið hefur um margra ára skeið í eldri lögum — ég man ekki hversu langt aftur sá passus í lögunum náði en hann er a.m.k. býsna gamall. Í upphaflegu frumvarpi sem lagt var fram á þingi var það ekki lagt til, en við sem mynduðum á þeim tíma meiri hluta í menntamálanefnd Alþingis lögðum til breytingar á frumvarpinu og lögðum til að starfshættir grunnskóla og leikskóla skyldu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Við ákváðum sem sagt að starfshættir skóla skyldu m.a. mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar.

Nú vill svo til að í Reykjavík eru komin til valda öfl sem virðast vilja vinda ofan af þeim starfsháttum sem skólum er ætlað að starfa eftir lögum samkvæmt og hafa lagt sig fram um að skólastarfið mótist frekar af einhverju öðru en kristinni arfleifð menningar okkar. Ef ég man rétt kveður tillagan á um að starfsmenn kirkjunnar fái ekki lengur að heimsækja skóla, kirkjuferðir verði bannaðar og einhverjar meldingar voru um að banna sálmasöng. Við þetta allt saman bættust hugmyndir um að banna listsköpun í trúarlegum tilgangi. Það var sem sagt með öðrum orðum verið að leggja til mjög róttækar breytingar á skólastarfi. Á þeim tíma sá ég ekki betur en að með þessum tillöguflutningi öllum væri verið að fara á svig við þau lög sem við samþykktum á Alþingi, ætli það hafi ekki verið í maímánuði árið 2008, alla vega vorið 2008. Þar fyrir utan felur þessi stefnubreyting í sér grundvallarbreytingar á því skólastarfi sem við þekkjum og höfum starfað eftir hér á landi. Þó svo að ég hafi talið mig sæmilega frjálslyndan lýsi ég mig algerlega andsnúinn þessum tillögum. Ég hef ég þó ekki haldið því fram að ég vilji að börnin leggist reglulega á bæn meðan þau eru í skólanum, en ég er ekki viss um að grundvallarbreytingar í skólastarfi séu neitt sem íslensk börn þurfa á að halda á þessum tímum.

Ég fæ ekki betur séð en kirkjan og skólinn hafi átt býsna góða samleið undanfarna áratugi. Ég veit ekki betur en kirkjan hafi lagt skólabörnum gott eitt til og kirkjunnar menn hafi lagt sig fram um að innræta börnunum okkar umburðarlyndi, kærleika, umhyggju, virðingu og fleiri góð gildi sem þau hafa búið síðar að á lífsleiðinni, a.m.k. er það mín reynsla.

Ég spyr þá sem halda um völdin í Reykjavík: Hvers vegna að breyta þessu fyrirkomulagi? Hvers vegna að breyta því sem ekkert er að? Hefur einhver orðið fyrir tjóni? Hefur kirkjan látið slæmt af sér leiða í skólum þessa lands? Það held ég ekki.

Við þær aðstæður sem uppi eru í samfélaginu og hafa verið held ég að börnin okkar hafi og þurfi allra síst á róttækum stefnubreytingum að halda í skólastarfinu. Nógu miklar breytingar hafa orðið að öðru leyti í lífi þeirra margra. Það finnur maður mjög í þeim skólum sem maður kemur reglulega í og það hljóta allir að gera — ég er með börn á leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólaaldri. Krakkar hafa takmarkaðan skilning á fjárlagahallanum og ólögmætum gengistryggðum lánum og kaupmáttarrýrnun og atvinnuleysi og skuldavanda heimilanna og fleiri afleitum fylgifiskum kreppunnar, en þau skynja engu að síður og hafa skynjað það ástand sem uppi hefur verið. Sum á eigin skinni heima fyrir en önnur verða þess áskynja í fréttatímum fjölmiðlanna. Við þær aðstæður, og það er það sem ég vildi koma á framfæri, er óvarlegt að ráðast í kollsteypur, ekki síst í skólastarfi. Krakkar sem eru á viðkvæmum aldri eiga að fá að njóta þess sem þau þekkja og hafa þekkt í störfum sínum í skólanum. Það á ekki að hrófla við föstum þáttum í skólastarfi þeirra.

Skólastarf þarf auðvitað að taka mið af sérstökum ástæðum og óskum þeirra sem ekki vilja undirgangast ákveðna þætti, svo sem þeirra sem ekki eru kristinnar trúar, og virða þarf rétt þeirra. Þá verður að líta til þess að markmiðsákvæði grunnskólalaganna sem ég rakti áðan kveður ekki einungis á um að starfshættir skóla skuli mótast af kristinni arfleifð íslenskra menningar heldur líka af jafnrétti, umburðarlyndi, kærleik, ábyrgð, umhyggju og virðingu. Þar fyrir utan kveður jafnræðisregla stjórnarskrárinnar á um að óheimilt sé að mismuna fólki eftir kyni, litarhætti, trúarskoðunum, þjóðerni og fleiru.

Virðulegi forseti. Ég er búinn að tala lengur en ég ætlaði um það frumvarp sem er til umfjöllunar en þegar mál sem lúta að stöðu, stjórn og starfsháttum þjóðkirkjunnar ber á góma vakna fjölmörg álitamál sem ástæða er til að drepa á í umræðu eins og þessari, bæði þau sem hafa mjög verið til umfjöllunar á opinberum vettvangi og varða mál sem leiðinlegt er að minnast á hér en ekki síður málefni sem ég hef rakið og varða pólitískan ágreining sem hefur verið uppi milli annars vegar okkar sem viljum að tengsl séu á milli kirkju og skóla og hinna sem vilja ráðast í grundvallarbreytingar að því leyti.

Hvað meginatriði þessa frumvarps varðar tel ég sjálfsagt að verða við því ákalli sem fram kom frá kirkjuráði til hæstv. ráðherra í nóvember 2010, um að flytja þetta frumvarp og heimila þá biskupi það vald sem ákvæðið til bráðabirgða kveður á um. Ég mun styðja frumvarpið og vildi taka það fram úr því að ég gat ekki verið viðstaddur afgreiðslu þess í hv. allsherjarnefnd þar sem ég á sæti.