Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 21:16:38 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[21:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Á þessum degi höfum við rætt mörg mjög stór mál og ég hef farið í ræðustól þegar ég tel mig hafa þurft að tjá mig um hlutina, það er ekki einhvers konar málþóf þótt sumir reyni að túlka það þannig.

Ef ég fer í heimsókn til einhvers finnst mér að ég eigi að hlíta þeim reglum sem gilda heima hjá honum. Ég fer t.d. ekki að umraða mublunum í stofunni hjá honum, ég fer ekki að breyta öllu húsinu hjá honum og segja honum að þessi mynd eigi ekki að vera á þessum vegg o.s.frv., herra forseti. Þannig vil ég hafa það.

Ég tel að ég hafi verið mjög hlynntur fjölmenningarsamfélagi. Ég held að íslenskt samfélag græði mjög mikið á þeim útlendingum sem hingað koma með alls konar menningu og annað slíkt, en ég frábið mér að þessi erlenda menning ryðji burt innlendri menningu, það vil ég bara ekki, enda held ég að það detti ekki nokkrum manni í hug nokkurs staðar að breyta menningu lands fyrir gestina. Þeir eiga að njóta þeirrar menningar sem fyrir er. Þeir völdu að koma til Íslands af því að það er kristið land, þeir vissu það fyrir fram, þeir vissu að hér er kristni í hávegum höfð, hér er kristin þjóðkirkja o.s.frv. þannig að trúarbrögð á Íslandi eru kristni og það vita þeir sem hingað koma. Ef ég fer til Sádi-Arabíu veit ég að þar er annar siður en á Íslandi og ég fer ekkert að heimta að reisa þar kirkju o.s.frv. af því að þeir banna það.

Ég vil gjarnan að þetta fólk reisi sér sínar kirkjur og sín hof og sín musteri eins og þeir vilja, að sjálfsögðu, en mér finnst það ganga fulllangt þegar það ætlar að fara að breyta mublunum hjá mér og breyta myndunum á veggjunum. Það finnst mér ganga of langt. Þá getur nefnilega það gerst sem menn reyna að vinna gegn fjölmenningarsamfélaginu, að það myndast mótstaða og andstaða og jafnvel útlendingaóvild, sem ég held að sé mjög skaðlegt fyrir alla aðila.

Þess vegna vil ég þegar við ræðum þetta mál, það hefur komið inn á umræður borgarstjórnar Reykjavíkur, að menn fari sér mjög varlega í því að ryðja burt þeim siðum sem við höfum haft. Við höfum haft þá siði að kristni sé kennd í skólum. Þannig var það lengi vel en nú má það allt í einu ekki lengur. Ég hugsa að margir hrökkvi dálítið í kút og finnist það ekki sérstaklega viðeigandi að börnin þeirra megi ekki læra kristni í skólunum og að það þurfi að heita trúarbragðakennsla þegar kristni er kennd í skólum. Íslenskt samfélag byggir á kristinni siðfræði og kristni og ég vil ekki að einhverjir aðrir siðir taki yfir íslenska siði og breyti þeim. En ég er mjög hlynntur fjölmenningarsamfélagi, ég vil endilega að við fáum hingað marga útlendinga með margs konar siði. Ég held að það auðgi íslenskt samfélag og ég vil bjóða allt það fólk hjartanlega velkomið. Ég hef umburðarlyndi gagnvart trú þeirra en ég vil ekki að það fari að ryðja burt minni trú, mínum siðum og minni menningu.