Þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins

Föstudaginn 10. júní 2011, kl. 17:04:51 (0)


139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

645. mál
[17:04]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er rétt að gera þingheimi ljóst að hér er verið að ganga frá þjónustutilskipun. Þessi tilskipun var mjög umdeild á sínum tíma þegar hún kom fyrst fram í janúar 2004, einkum vegna ákvæða um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt og svo hinnar svokölluðu upprunalandsreglu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði hins vegar fram nýja tillögu tveimur árum síðar án ákvæða um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt og auk þess voru gerðar miklar breytingar á svokallaðri upprunalandsreglu.

Verði þessi frumvörp að lögum felst í því mikið hagræði fyrir veitendur þjónustu sem og ekki síður viðtakendur þjónustu, en í frumvarpinu er t.d. kveðið á um að óheimilt sé að mismuna viðtakendum þjónustu á grundvelli þjóðernis eða búsetu og er þjónustuveitendum gert skylt að veita ákveðnar upplýsingar um sig og hafa þjónustu sína aðgengilega fyrir allra. Þetta er hið ágætasta mál.