Þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins

Föstudaginn 10. júní 2011, kl. 20:19:29 (0)


139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

645. mál
[20:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þegar þjónustutilskipun ESB kom fyrst fram fyrir um sjö árum einkenndist hún af mjög ágengri og frekri markaðshyggju. Verkalýðshreyfingunni og félagslegum öflum í Evrópu tókst að sníða verstu agnúana af hvað varðar réttindi launafólks, vísa ég þar til hinnar svokölluðu upprunalandsreglu, og það tókst að reisa ákveðna varnarmúra um velferðarþjónustuna.

En viti menn, þegar tilskipunin var endanlega samþykkt fögnuðu báðir pólar, ýtrasta markaðshyggja og félagshyggja. Hvers vegna? Menn ætluðu að vinna sína sigra frammi fyrir dómstólum sem kæmu til með að túlka niðurstöðurnar eða lögin. Þess vegna skiptir miklu máli það starf sem unnið hefur verið á vegum hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og ég fagna því þeim áherslum sem er að finna í greinargerð með frumvarpinu og koma til með að skipta miklu máli ef kemur til kasta dómstóla á komandi árum.

Þegar við verðum búin að losa okkur við Evrópusambandsumræðuna (Forseti hringir.) og Evrópusambandsóværuna út úr heiminum (Gripið fram í.) þá kemur að því að Íslendingar smíði löggjöf til varnar velferðarþjónustunni (Forseti hringir.) sem ver okkur betur innan EES en hún kæmi til með að gera innan ESB. [Háreysti í þingsal.]