Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 10. júní 2011, kl. 22:59:49 (0)


139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stundum hefur verið sagt í hálfkæringi að LÍÚ hafi ráðið för í lagasetningu hingað til svo þeir hafa nú verið nefndir í umræðu um fiskveiðistjórnarlöggjöfina sem verið hefur hér við lýði í fjölda ára. (Gripið fram í.) Þeir hafa verið ansi nálægt þeim sem ráðið hafa hverju sinni og ættu hv. alþingismenn hér inni að þekkja það manna best.

Þarna er kveðin upp niðurstaða sem trúlega allir eru ósáttir við en hún er hugsuð til að jafna byggðalegar og félagslegar aðgerðir sem engir útgerðaraðilar geta skotist undan, sama hvort þeir eru á uppsjávarveiðum eða öðrum veiðum. Farin er mjög mild leið í þessu máli.