Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 10. júní 2011, kl. 23:17:15 (0)


139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er til marks um það hversu mikið klúður þetta mál er og hversu vanbúið, hversu mikill flumbrugangur að koma því til afgreiðslu, að þegar nefndarálitum var skilað í gær hét nefndarálit mitt, fulltrúa framsóknarmanna, nefndarálit 1. minni hluta. Þegar fundað var síðan í nefndinni í dag varð til annar 1. minni hluti þegar meiri hluti, þ.e. stjórnarþingmennirnir, kom sér ekki meira saman en svo að þeir eru aðeins fjórir á málinu, þar af þrír með fyrirvara. Sá fimmti sat hjá og við í stjórnarandstöðunni greiddum atkvæði gegn þessu frumvarpi eins og við gerðum þegar það var tekið út í hið fyrra sinn. Það skýrir af hverju þetta nefndarálit sem ég ætla að kynna heitir frá 1. minni hluta en er orðið sem sagt 2. minni hluti í dag.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til ýmsar breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða og má segja að það séu annars vegar breytingar sem varða tímabundin ákvæði á yfirstandandi ári og síðan bráðabirgðaákvæði um næsta ár en líka nokkrar almennar breytingar sem eru komnar til að vera.

Eins og fram hefur komið í umræðum í þinginu síðustu vikuna voru athugasemdir umsagnaraðila um málið mjög neikvæðar í öllum tilvikum. Það voru ekki flestir, það voru allir. Ítrekað var bent á að samþykkt þessa frumvarps mundi veikja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins, veikja gengi krónunnar, auka pólitískt vald ráðherra, ráðherraræði með óeðlilegu valdaframsali, og færa veiðiheimildir frá þeim sem hafa atvinnu af sjómennsku til aðila sem stunda hana í frítíma sínum.

Sá sem hér stendur tekur undir athugasemdir umsagnaraðila og gagnrýnir jafnframt þann stutta tíma sem nefndin hefur haft við afgreiðslu málsins. Að sama skapi voru umsagnaraðilum eingöngu gefnir þrír dagar, þar af ein helgi, til að skila inn athugasemdum og telur 2. minni hluti það óeðlilega stuttan tíma í ljósi þess hversu miklir hagsmunir eru í húfi þótt segja megi að það sé almennt alltaf of stuttur tími, sérstaklega þó í svona alvarlegu máli.

Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 6. gr. laganna á þann hátt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti ákveðið með reglugerð að aukning aflamagns í strandveiðum umfram 6 þús. lestir geti runnið til flokks minni skipa. Frá þessu hefur meiri hlutinn, sem er orðinn minni hluti, fallið og er það vel. Það er afar óskynsamlegt að leggja til slíkan sérsmábátastrandveiðiflota, m.a. af öryggisástæðum. Ljóst er hins vegar að mikil eftirspurn hefur verið eftir kerfi sem gefur nýliðum tækifæri til að stunda veiðar. Strandveiðikerfið hefur verið tilraun til að svara þessari eftirspurn. Kerfið hefur sætt alvarlegri gagnrýni nær allra samfélagshópa, þar með talið strandveiðiflotans sjálfs. Stjórn veiðanna stuðlar að mismunun eftir stærð báta og landshlutum, lágu fiskverði til þátttakenda, minni gæðum, óhagkvæmri sjósókn með hærri olíukostnaði og útilokun frá nýsköpun á bestu mánuðum ársins. Allir hópar samfélagsins, þar með talið ýmsir útgerðarmenn, eru tilbúnir að leggja til heimildir til nýliðunar. Hins vegar er ekki áhugi fyrir því að heimildir séu teknar af útgerðum landsins til að færa öðrum starfandi útgerðum eða fyrrverandi útgerðarmönnum fiskveiðiheimildir. Ekki er heldur áhugi fyrir því að aflaheimildir séu fluttar úr aflamarkskerfinu í einum landshluta til tímabundinna félagslegra veiða í öðrum landshluta. Veiðina þarf að opna og gera mögulegri í öllum landshlutum sem stuðning við nýliða, kvótalausar útgerðir og frumkvöðla. Framsóknarflokkurinn er tilbúinn til að taka þátt í mótun strandveiðikerfis sem byggist meðal annars á tillögu til þingsályktunar sem við höfum lagt fram á þskj. 1670, 881. máli, og er hér fylgiskjal með nefndarálitinu.

Einnig er fylgiskjal sem merkt er II þar sem í grófum dráttum er farið yfir nýjar hugmyndir um útfærslu strandveiða sem nýliðunarveiða. Það yrði gert á grundvelli fiskveiðiársins, heils árs, en bátar mættu þó aldrei landa umfram 50% af heilsársstrandveiðiheimildum innan sama mánaðar. Leyfum yrði úthlutað til mislangs tíma, þriggja, fimm eða jafnvel sjö ára, og þeir sem færu með um 50 þorskígildistonn af nýtingarrétti eða meira gætu ekki sótt um strandveiðileyfi. Þeir sem hafa selt kvóta geta ekki heldur sótt um strandveiðileyfi fyrr en eftir að ákveðin ár eru liðin frá sölu heimildanna. Síðan yrði kostnaður við hvert strandveiðileyfi innheimtur við upphaf veiða og yrði hann allnokkur.

Með þessum hætti væri hægt að búa til raunverulegt kerfi sem mundi byggja sig upp til að þar gætu komið inn nýir aðilar sem byggðu sig upp og hyrfu síðan, gætu keypt sér aflaheimildir smátt og smátt og færu síðan inn í stærra kerfið á grundvelli þess að skapa nýtt, veiða nýjar tegundir, vannýttar tegundir, og þannig stækka kökuna sem við sækjumst auðvitað eftir.

Í 2. gr. er lögð fram tillaga að breytingum á því ákvæði laganna er fjallar um hvaða aflaheimildir skulu dregnar frá heildaraflamarki áður en kemur til almennrar úthlutunar til fiskiskipaflotans. Frumvarpstillagan sjálf eins og hún kom fyrst fram gengur allt of langt og getur ekki farið óbreytt í gegnum þingið. Meiri hlutinn hafði hins vegar lagt fram breytingartillögu sem felur í sér á einhvern hátt sanngjarnara fyrirkomulag sem þó er umdeilt og hefur ekki fengið nægilegan tíma til skoðunar til að athuga hvort sú útfærsla sé sú besta. Í prinsippinu eru nær allir aðilar, þótt ágreiningur sé eðlilega um þetta þar sem hagsmunir togast á, sammála um að það sé eðlilegt að allir leggi eitthvað til þessarar jöfnunar sem fer síðan til hins félagslega kerfis.

Annar minni hluti telur að tillagan sé til bóta og gæti, ef vel heppnast og þá kem ég að því að það þurfi að útfæra hana betur, verið grundvöllur að réttlátari jöfnun milli aflahlutdeildarkerfisins og annarra úthlutunaraðferða. 2. minni hluti bendir hins vegar á hvort rétt væri að bíða með lögfestinguna, fresta málinu til að fjalla betur um það eða þá að lögfesta málið núna og bíða með gildistöku útfærslunnar til betri tíma. Þá yrði að skoða það í heild sinni og kem ég inn á það betur seinna í máli mínu. Einnig þarf að skoða prósentuhlutann og bendir 2. minni hluti á að það sé óskýrt af hverju talað var um að það væri komin á hærri prósentutala en í upphaflegum hugmyndum. Það var talað um 5,3% en áður um rúm 4%. Aðalástæðan fyrir þessum vandræðagangi er sú að ekki hefur gefist nægilegur tími til að gaumgæfa þau áhrif sem tillagan hefur og því væri hugsanlega skynsamlegast að lögfesta prinsippið en bíða með að láta ákvæðin koma til framkvæmda. Þá þýðir það líka að það þarf að fella út fleiri hluti í greininni, bíða til dæmis með afgreiðslu hennar til haustsins.

Það er álit 2. minni hluta að rétt sé að fella 3. gr. frumvarpsins brott og láta núverandi byggðakvótaúthlutunarkerfi standa óbreytt. Á það hefur meiri hlutinn fallist í seinni lotunni. Það er hins vegar nauðsynlegt að leggjast yfir reglurnar um byggðakvótaúthlutunarkerfið og gera þær bæði einfaldari og skilvirkari. Í því sambandi bendir 2. minni hluti á hugmyndir okkar framsóknarmanna sem fram koma í áðurnefndri þingsályktunartillögu um framtíðarstefnu í sjávarútvegsmálum. Þar er lagt til að farin verði sú leið að úthluta ákveðnu magni aflaheimilda til fiskvinnslanna í landinu. Mundi slíkt fyrirkomulag tryggja með enn öruggari hætti vinnu í viðkomandi byggðarlagi. Nauðsynlegt væri að setja ákveðnar verklags- og viðmiðunarreglur og telur 2. minni hluti að eðlilegt væri að úthlutun mundi meðal annars miðast við vinnslu ársins á undan. Reglurnar yrðu einfaldari og málið skilvirkara.

Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að viðmið vegna útreiknings á veiðigjaldi verði hækkað um liðlega 70%. Meiri hlutinn hefur nú með breytingartillögu fallist á að það verði um 40%. 2. minni hluti telur eðlilegt að leggja á veiðigjald en bendir hins vegar á að það verði að vera hóflegt og tengt afkomu greinarinnar. 2. minni hluti gagnrýnir jafnframt harðlega að ekki liggi fyrir efnahagsleg greining á áhrifum þess að hækka veiðigjaldið jafnmikið og lagt er til og telur 2. minni hlutinn nauðsynlegt að slík greining liggi fyrir áður en málið verður afgreitt í þinginu. Það sama má segja um hverja einustu grein, hér hefur ekki verið gerð hagfræðileg og efnisleg greining, ekki á einstökum greinum og hvað þá á samlegðaráhrifum þess ef við tökum allar greinarnar saman.

Annar minni hluti bendir á að veiðigjaldið er skattur í lagalegum skilningi og innheimta gjaldsins þarf því að byggjast á skýrri heimild í lögum. Það er sérstaklega vafasamt að í frumvarpinu sé sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra falið skattlagningarvaldið án þess að kveðið sé á um efnisleg viðmið um það hvernig þessu valdi skuli beitt. Að mati 2. minni hluta fullnægir það ekki skilyrðum 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar að vísa í ákvæðinu í rekstraryfirlit fiskveiða sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir yfir mismunandi útgerðarflokka. Við töldum að þessi b-liður 5. gr. mundi falla brott og á það hefur meiri hlutinn reyndar fallist í síðustu breytingartillögu.

Núgildandi fyrirkomulag um ráðstöfun veiðigjaldsins gerir ráð fyrir að allar tekjur af veiðigjaldinu renni óskiptar til ríkissjóðs. Í 6. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á því fyrirkomulagi þannig að 80% tekna renni í ríkissjóð en 20% yrði ráðstafað eftir tilteknu skiptihlutfalli til landshluta. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að vonast er til að með þessari nýju skiptingu muni meiri sátt ríkja um ráðstöfun veiðigjaldsins. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur hins vegar fram mikil gagnrýni á ákvæðið. Til að mynda er bent á að hið nýja fyrirkomulag muni leiða til þess að mikill mismunur verði á framlagi til einstakra landshluta. 2. minni hluti telur mikilvægt að hluti auðlindarentunnar renni til greinarinnar sjálfrar til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstarfa. Að sama skapi er nauðsynlegt að nýir aðilar geti sótt um styrk til nýsköpunar og rannsókna, eins og ég ræddi um áðan um nýliðunarveiðarnar, til að auðga þekkingu og nýtingu auðlindarinnar.

Þá tekur 2. minni hluti undir þá hugmyndafræði meiri hlutans að hluti gjaldsins renni aftur til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til. Er það í samræmi við þær hugmyndir sem fram koma í þingsályktunartillögu Framsóknarflokksins um framtíðarstefnu í sjávarútvegsmálum. Þar kemur jafnframt fram að ef hluti gjaldsins rennur til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan varð til væri í raun um að ræða mótvægi við þá viðbótarskattlagningu sem má halda fram að sé sérstaklega á landsbyggðinni. Þó að 2. minni hluti sé samþykkur hugmyndafræðinni að baki ákvæðinu gagnrýnir hann sérstaklega útfærsluna.

Nú hefur meiri hlutinn breytt tillögu sinni og er það til bóta en 2. minni hluti telur að best væri að útfæra hugmynd sem miðaðist við að hluti auðlindarentunnar færi til atvinnusköpunar í viðkomandi byggðarlagi með því til dæmis að fjármunirnir rynnu til atvinnuþróunarfélaga og ef til vill eignarhaldsfélaga sem mundu tilheyra viðkomandi byggðarlagi. Meiri hluti gjaldsins rynni síðan eðlilega í ríkissjóð.

Annar minni hluti bendir jafnframt á í þessu sambandi að grundvallaratriði er að skilgreina þjóðareign á auðlindum og hvaða auðlindir séu í þjóðareign. Í kjölfar þess er svo nauðsynlegt að tryggja jafnræði milli atvinnugreina um gjaldtöku.

Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að þrjú ný ákvæði til bráðabirgða bætist við lögin. Í a-lið er lagt til að á núverandi fiskveiðiári, 2010/2011, og einnig á því næsta, 2011/2012, hafi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2 þús. lestir af síld til sérstakrar úthlutunar og að fiskveiðiárið 2011/2012 hafi hann einnig 1.200 lestir af skötusel til sérstakrar úthlutunar. 2. minni hluti er alfarið á móti a-lið 7. gr. og hefur jafnframt meiri hlutinn, þ.e. 1. minni hluti nú orðið, bætt við 2 þús. lestum af norsk-íslenskri síld inn í þetta, þar sem hér er verið að fara út úr aflamarkskerfinu og færa úthlutun frá einum aðila yfir til annars en ekki er verið að tala um aukningu, t.d. umfram 20 ára meðaltalsafla. Að mati 2. minni hluta er mikilvægt að við úthlutun sé ávallt gætt að varúðarreglu um heildarveiði og að varlega verði farið í breytingar á því kerfi.

Í b-lið 7. gr. er kveðið á um að skipstjóra skips sé heimilt að ákveða að ákveðinn hluti keilu- og lönguafla reiknist ekki til aflamarks skipsins en nokkuð er um að langa og keila veiðist sem meðafli við þorsk- og ýsuveiðar. Er markmið ákvæðisins sagt vera að draga úr brottkasti vegna skorts á aflamarki. 2. minni hluti er sammála þeirri ákvörðun meiri hlutans að leggja til að ákvæðið verði fellt brott, eins og gerðist fljótlega í fyrstu lotu þegar 1. minni hluti lagði fram sínar breytingartillögur. Er það mat 2. minni hluta að ákvæðið gæti hugsanlega leitt til ofveiði í framangreindum tegundum. Það ber að forðast.

Í c-lið 7. gr. er gert ráð fyrir að ákveðnu viðbótarmagni sé ráðstafað til strandveiða annars vegar og í byggðakvóta hins vegar. Þannig er gert ráð fyrir aukningu á þorsk- og ufsakvóta, upphaflega var það svo, til strandveiða á yfirstandandi og einnig á næsta fiskveiðiári og hins vegar er gert ráð fyrir aukningu á þorsk-, ýsu- og ufsakvóta á næsta fiskveiðiári til stuðnings byggðarlögum. 2. minni hluti getur tekið undir að til að stuðla að víðtækari sátt um fiskveiðistjórnarkerfið megi auka úthlutun til ýmissa þátta, samanber tillögur okkar framsóknarmanna í áðurnefndu þskj. 1670, um framtíðarstefnu í sjávarútvegsmálum, en telur að hér sé allt of bratt farið í þær stækkanir og að í ljósi reynslunnar sé það ekki skynsamlegt.

Nú er þetta til að mynda þriðja sumarið sem strandveiðar standa yfir og að þeim loknum væri eðlilegt að menn litu til baka og mætu með hvaða hætti þær hefðu skilað árangri, bæði hagfræðilega, félagslega og þjóðhagslega, áður en þeir tækju síðan ákvörðun um að fara að auka enn frekar í þann pott.

Annar minni hluti bendir einnig á að óskynsamlega sé farið í úthlutun til strandveiða þetta árið þar sem strandveiðitímabilið sé nú hálfnað þegar úthlutun verður. 2. minni hluti telur að til að byrja með hefði kannski verið skynsamlegt að úthluta til að mynda um 1 þús. tonnum af þorski og 250 tonnum af ufsa án þess að kæmi til skerðingar á aflaheimildum annarra þetta fiskveiðiárið og án þess að trufla aflareglu eða gæðavottun ábyrgra fiskveiða. Það er ákaflega mikilvægt að við stöndum þar fast í fætur.

Hvað viðkemur úthlutun vegna næsta fiskveiðiárs telur 2. minni hluti að þar sé allt of langt gengið. Nauðsynlegt er að ákvörðun um stækkun potta sé tekin vegna raunverulegrar stofnstærðaraukningar en ekki til þess eins að færa úthlutun frá einum til annars. Það skapar ekki ný störf meðan úthlutun til aflamarkskerfisins er langt undir meðaltali aflaheimilda síðustu 20 ára. Betra væri að auka við pottana lítið í einu á löngum tíma, læra af og byggja á þeirri reynslu sem þar skapast. Ef hún er jákvæð er í lagi að halda áfram á þeirri braut en ef hún er neikvæð er þetta hreinlega afar vitlaust. Bendir 2. minni hluti á að við slíkar stækkanir á pottum er nauðsynlegt að skipaður verði samráðshópur til að sem víðtækust sátt náist um fiskveiðistjórnarkerfið. Er slíkan samráðshóp meðal annars að finna í áðurnefndri þingsályktunartillögu sem er fylgiskjal með þessu nefndaráliti.

Í breytingartillögum er meðal annars að finna tillögu að nýju ákvæði til bráðabirgða. Er það lagt til sökum þess að ekki er að finna í frumvarpinu ákvæði sem framlengir ákvæði til bráðabirgða IX í lögum um stjórn fiskveiða. Ákvæðið nær einna helst til ferðaþjónustubáta þar sem farþegar stunda sjóstangveiði með fjölda stanga. Ákvæðið kveður á um að á tveimur fiskveiðiárum skuli allt að 200 lestir af óslægðum botnfiski boðnar til leigu þeim sem hafa leyfi til frístundaveiða. 2. minni hluti telur að í stað þess fyrirkomulags sem haft hefur verið um frístundaveiðarnar sé skynsamlegra og betra kerfi að finna í tillögum framsóknarmanna í framangreindri tillögu til þingsályktunar. Því er við þetta að bæta að nú er komin ný breytingartillaga frá 1. minni hluta sem hljóðar þannig að þetta verði ekki lengur bráðabirgðaákvæði heldur verði það sett inn í lögin, það verði ekki um 200 tonn heldur fari um 300 lestir af óslægðum botnfiski á hverju fiskveiðiári til þessa og að þar verði verðið á aflaheimildunum 80% af meðalverði í viðskiptum með aflamark sem birt er á vef Fiskistofu.

Okkar tillögur eru þær að þessar svokölluðu frístundaveiðar verði kallaðar ferðaþjónustuveiðar. Hugmyndin er sú að útgáfa veiðileyfa byggist fyrst og fremst á því að eftir slíkar veiðar verði heimilt að landa aflanum inn á Hafró sem VS-afla. Með þeim hætti gæti atvinnugreinin dafnað á eigin forsendum ferðaþjónustu en sé ekki takmörkuð af því að eiga ekki aðgang að aflaheimildum. 2. minni hluti áréttar að setja þyrfti sérstakar reglur um þessa atvinnugrein og úthlutun veiðileyfanna til hennar, til að mynda setja eitthvert þak á hverju ári til að menn hafi stjórn á því með hvaða hætti hún vex. Þetta fyrirkomulag mundi hins vegar ýta undir nýsköpun og styrkingu ferðaþjónustunnar, sérstaklega í ljósi þess að ferðaþjónustuveiðar eru mikilvægur vaxtarbroddur í einstökum sjávarbyggðum og hafa mikla möguleika til að dafna og stækka.

Þá má líka nefna að sjóstangveiðikeppnir sem eru víða haldnar draga til sín mikinn fjölda manna sem er þar um nokkuð langan tíma. Margföldunaráhrif af ferðaþjónustu sem nýtir hluta af annarri atvinnugrein eru margföld og þarna er verið að tryggja að það geti gerst á grundvelli ferðaþjónustunnar en ekki að menn þurfi að útvega sér aflaheimildir. Það getur meira að segja gengið þannig til að þeir sem eru í þessari starfsemi selji ferðir til lands með aðgangi að veiði en geti síðan ekki aflað sér aflaheimilda, verði þar af leiðandi að svíkja þann samning sem þeir hafa gert við viðkomandi ferðakaupendur og brjóti þar með alferðalög. Þetta er eitt af því sem þyrfti að skoða í ljósi þess að við erum að skapa nýsköpun og efla atvinnulífið sem víðast á landsbyggðinni sem byggist þá ekki eingöngu á fiskveiðum og vinnslu heldur á fleiri hlutum sem aðstæður, náttúra og fólk getur boðið upp á á hverjum stað.

Að öllu framansögðu er ljóst að 2. minni hluti telur frumvarpið ákaflega vanbúið. Einstakar greinar má fella út og breyta öðrum. 2. minni hluti leggst gegn frumvarpinu eins og það liggur fyrir og leggur til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar til gagngerrar endurskoðunar þar sem samráð og samvinna verði höfð við alla hagsmunaaðila, samanber tillögur á áðurnefndu þskj. 1670.

Undir þetta ritar Sigurður Ingi Jóhannsson, fulltrúi framsóknarmanna í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Jafnframt fylgir álitinu, eins og ég nefndi í upphafi máls míns, fylgiskjal I sem er tillaga til þingsályktunar um framtíðarstefnu í sjávarútvegsmálum sem var dreift í þinginu nýlega. Allur þingflokkur framsóknarmanna stendur að þeirri tillögu og ég vísa þeim á að renna yfir hana sem áhuga hafa. Þar er grundvöllur þess að Alþingi álykti að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa samráðshóp til að leita leiða til að móta skýra stefnu til lengri tíma í sjávarútvegsmálum. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra þingflokka, fulltrúum atvinnulífs, launþega, sveitarfélaga, fyrirtækja í sjávarútvegi og annarra hagsmunasamtaka. Hópurinn leggi tillögur fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eigi síðar en 1. janúar 2012 og ráðherra leggi fram lagafrumvörp til innleiðingar þeirra í íslensk lög.

Það sem þarf að leggja áherslu á er meðal annars að sjávarauðlindin verði tryggð sem sameign þjóðarinnar með ákvæði í stjórnarskrá, að stjórn fiskveiða verði sú blandaða leið sem menn hafa rætt um sem er annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar úthlutun veiðileyfa til að taka mið af sérstökum byggðaaðgerðum, hvatningu til nýsköpunar og nýliðun og fleiri þátta svo ég hlaupi hratt yfir sögu.

Þar er jafnframt fjallað um veiðigjald og auðlindarentu eins og ég nefndi í nefndarálitinu og með hvaða hætti það rynni aftur til landsvæðanna að hluta til til atvinnusköpunar. Það er það sem við þurfum að gera, við þurfum að hætta að nota atvinnugreinarnar sjálfar til að byggja upp allar byggðir landsins. Það dugar ekki að henda nokkrum þorskum eða nokkrum kindum hingað og þangað vítt og breitt um landið, ýmist í fjörðum eða inn til fjalla, til að halda uppi atvinnu. Við verðum að átta okkur á því að til að skapa öflugt atvinnulíf verður ákveðin hagræðing að eiga sér stað, fyrirtækin að styrkjast og eflast sem vel ganga, en í staðinn þurfum við að byggja upp aðra atvinnu í öðrum starfsgreinum í þessum byggðum landsins. Til þess getum við notað þá fjármuni sem atvinnugreinin skapar. (Gripið fram í: Hagnað af sauðfjárræktinni?)

Jafnframt tökum við sérstaklega til þess að hlúa þurfi að nýsköpun og enn frekari nýtingu þess hráefnis sem við drögum nú þegar úr sjó með einum eða öðrum hætti. Auðvitað þurfum við að tryggja að auðlindin verði nýtt á sem skynsamlegastan hátt og að nýtingin verði byggð á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins.

Svo er atriði sem hefur því miður oft og tíðum farið forgörðum í umræðu um sjávarútveg en það verður að leggja áherslu á að sjávarútvegur er ekki einungis fiskveiðar, heldur er íslenskur sjávarútvegur hátæknivæddur matvælaiðnaður sem byggir á því að hafa gríðarlega öflugt markaðsstarf á sínum snærum. Þannig gengur þetta fyrir sig í dag.

Að lokum varðandi þessa þingsályktunartillögu verður að beina sjónum í vaxandi mæli að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda hafsins til að tryggja áframhaldandi forustu okkar Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins.

Til að gera langa sögu stutta legg ég til að þessu vanbúna frumvarpi sem kom hér inn með allt of skömmum fyrirvara og hefur fengið afar neikvæð viðbrögð frá umsagnaraðilum og þeim gestum sem við kölluðum til nefndarinnar, litla umræðu í nefndinni þangað til síðast í dag á tveimur fundum, verði vísað til föðurhúsanna, til ríkisstjórnarinnar, og komi til skoðunar aftur í haust þegar menn hafa lagst yfir þær greinar og þær breytingar sem menn áætluðu að gera á þessu kerfi.