139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hæstv. forseti segir að einn erfiðasti hluti fiskveiðistjórnarkerfisins eru auðvitað þær aðstæður sem koma upp eins og hæstv. ráðherra lýsti. Ég held að við séum ekkert ósammála um það mat. Hins vegar verður hæstv. ráðherra að gera sér grein fyrir því að hann getur örugglega ekki tryggt, jafnvel ekki með lagasetningu, að allt verði ævinlega óbreytt, því að það þýðir bara stöðnun. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra ímyndi sér að það sem hann setur í lög núna muni tryggja og gera það að verkum að veiðiréttinum verði nákvæmlega eins dreift um landið og hann er núna á árinu 2011, eða er það hugmyndin? Er það hugmyndin t.d. að skrúfa sig aftur til ársins 1990 með þeim fjölda skipa sem þá voru gerð út, með þeim fjölda frystihúsa sem þá voru til staðar, þrátt fyrir að afkastageta skipanna hafi margfaldast með breyttri tækni o.s.frv.? Það viljum við ekki. Sú breyting sem t.d. hefur orðið í smábátakerfinu, svo við tökum dæmi, sem var kerfi fyrir byggðirnar sérstaklega, er að orðið hafa til stærri bátar, öflugri bátar. Það eru bátar sem geta þjónustað fiskvinnslu allt árið um kring, það gátu minni bátarnir ekki áður. Það eru bátar sem eru öruggari fyrir sjómenn. Það eru bátar þar sem hægt er að fara betur með aflann. Því fylgir auðvitað að bátum hefur fækkað í þessu kerfi eins og annars staðar. Vill hæstv. ráðherra skrúfa það til baka? Ég trúi því nú ekki. Menn verða bara að horfast í augu við að þetta er svona.

Ég sagði að ég vildi hafa tiltekin byggðaleg úrræði en að á þeim yrði að vera hóf því að ef menn vilja ganga götuna til enda og hafa fiskveiðistjórnarkerfið bara byggðalegt, bara félagslegt, lendum við í þeim vítahring sem ég var að lýsa: Greinin verður óhagkvæmari, fólk vill ekki starfa í henni og ef hún er á landsbyggðinni vill fólk ekki búa þar.