139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er vandlifað í þessu eins og hv. þingmaður rekur. Ég held að öryggið sé lítið sem fólk á Vestfjörðum býr við, en þar rétt undan eru jú ein fengsælustu mið landsins, það getur lent í þeirri vá að missa frá sér aflaheimildirnar bara vegna ákvörðunar eins eða tveggja einstaklinga sem horfa eingöngu á málin út frá eigin hagnaðarvon án þess að hafa í rauninni nokkurn tímann átt rétt á því hvað samfélagið varðar að fara þannig með.

En ég vil aðeins spyrja hv. þingmann út í veiðigjaldið. Ég hef lagt áherslu á að þegar kostnaður er lagður á atvinnugrein með veiðigjaldi, eins og sjávarútveginn sem er landsbyggðaratvinnugrein — ég er sammála hv. þingmanni um það, byggð og búseta víða um land byggir á þessari grein — renni hluti veiðigjalds til sjávarbyggða, til styrkingar og eflingar atvinnulífi í þeim sjávarbyggðum sem eiga allt sitt undir þessu. Staðreyndin er sú að fjármagn er flutt í stórum stíl frá þessum sjávarbyggðum og hingað til hins miðstýrða þjónustusvæðis. Þá er það mitt mat að löggjafinn eigi að grípa þarna inn í til að koma til (Forseti hringir.) móts við byggðirnar hvað þetta varðar. Þess vegna hef ég lagt þetta til (Forseti hringir.) og óska eftir áliti hv. þingmanns á því.