139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því hæstv. ráðherra nefndi Vestfirði sem við þekkjum vel, hefur útgerð þar verið að eflast á ýmsum stöðum m.a. fyrir tilstuðlan fiskveiðistjórnarkerfis smábátanna sem sett var á laggirnar og var mjög umdeilanlegt á sínum tíma en fékk hins vegar í sinn hlut heilmikinn veiðirétt. Það hefur þróast með þeim hætti sem ég greindi frá áðan. Nú eru þarna öflugir smábátar, 15 tonna bátar, sem fiska kannski 1.500 tonn á ári. Það er svipaður afli og 10 litlir bátar fiskuðu á ári fyrir einhverjum árum.

Spurningin er þessi: Er þetta góð eða vond þróun? Mér finnst hún góð, vegna þess að hún hefur leitt til þess sem ég var að segja. Það hefur auðvitað haft afleiðingar. Það var gert með miklu meiri tilkostnaði að 10 bátar fiskuðu 150 tonn hver og fiskuðu samtals 1.500 tonn og vegna þess að tilkostnaður var meiri urðu menn að sætta sig við að róa á minni bátum. Nú er kerfið með þessum hætti og hefur orðið kjölfestan í mörgum byggðum. Auðvitað hefur það líka afleiðingar í för með sér.

Ég er einfaldlega að segja að það er alveg sama hversu vel við erum meinandi, ég og hæstv. ráðherra, getum við ekki endalaust byggt inn í kerfið byggðalega hvata sem lúta að því eingöngu. Þess vegna hef ég verið að hugsa þær hugsanir sem ég deili vonandi með hæstv. ráðherra, að við notum þá hagræðingu sem sjávarútvegurinn hefur búið til, það veiðigjald sem hann borgar núna vegna betri afkomu af ýmsum ástæðum, til að byggja upp nýja atvinnugreinar, styrkja innviði, takast á við vandamál eins og flutningskostnaður er fyrir iðnfyrirtækin á landsbyggðinni, þar er af mörgu að taka. Ég held að það ætti að vera stærsta verkefnið sem hæstv. ráðherra tekst á við í sumar og svo hann ætti að leggja stóra frumvarpið til hliðar. (Forseti hringir.)