Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 09:32:09 (0)

139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[09:32]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er allsérstakt bæði að innihaldi og efnistökum. Það liggur í rauninni fyrir að í hvert sinn sem það er tekið til umfjöllunar tekur það einhverjum breytingum í þinginu. Svo furðulegt sem það er boðuðu þeir stjórnmálaflokkar sem hlutu meiri hluta í kosningum vorið 2009 gagngera endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu og settu þau ákvæði í stjórnarsáttmála sinn að gera þær breytingar þar á, ef ég man rétt, sem tækju gildi við upphaf næsta fiskveiðiárs eftir að stjórnin var mynduð. Fyrir utan það að síðan eru liðin tvö ár hafa þessir tveir stjórnmálaflokkar allt frá upphafi haft fullt tækifæri til þess að leggja fram breytingar, vel grundaðar breytingar á kerfinu og fá til þess umboð kjósenda að gera þær ef þær féllu þeim í geð. Þrátt fyrir það hefur þeim ágætu stjórnmálaflokkum ekki enn tekist að koma þeim breytingum til framkvæmda sem þeir segjast hafa staðið fyrir að gera fyrr en nú í formi þeirra tveggja lagafrumvarpa sem í rauninni bera þess merki að hið svokallaða stóra frumvarp er mál Samfylkingarinnar og hið svokallaða minna frumvarp er mál Vinstri grænna.

Nú liggur fyrir að stóra frumvarpinu hefur verið velt áfram til næsta þings. Þar er boðin heildarendurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni og þá væntanlega í meira samráði en fram til þessa hefur verið, því það var raunar með ólíkindum að horfa til þess hvernig fór um þá breiðu samstöðu sem náðst hafði um að ólíkir stjórnmálaflokkar eða stjórnmálaöfl, ólíkir hagsmunaaðilar, ætluðu sér að leggja saman í þá vegferð að vinna að setningu nýs fiskveiðistjórnarkerfis. Það verk náði þeim áfanga að endurskoðunarnefndin skilaði af sér áfangaskýrslu en við skil hennar slitnaði upp úr þegar formaður nefndarinnar yfirgaf starfið fyrir hönd Samfylkingarinnar og sagði öllum öðrum stríð á hendur með frekara samráð. Það gekk ekki eftir og afraksturinn af þeirri óeiningu sem það skapaði birtist okkur í þeim óvönduðu lagafrumvörpum sem lögð hafa verið fram í framhaldinu.

Eins og ég nefndi áðan liggur fyrir hið svokallaða minna frumvarp, frumvarp Vinstri grænna með þeirra áherslum. Maður skyldi ætla miðað við hvernig stjórnarflokkarnir hafa talað á undanförnum árum að gríðarleg gleðibylgja hefði gripið um sig meðal þjóðarinnar þegar frumvörp þeirra komu fram. Svo undarlegt sem það er eru viðbrögð þeirra sem vinna í sjávarútvegi beint og í afleiddum störfum, um það bil 30 þúsund Íslendinga, þ.e. sjómanna, ASÍ, félaga útgerðarmanna, félaga fiskvinnslufólks víða um land, sveitarstjórna og þannig mætti lengi áfram telja — allir þessir aðilar gjalda varhuga við þeim málum eins og þau eru lögð upp.

Það er ekkert skrýtið vegna þess að eins og þetta liggur fyrir er sama verklaginu haldið áfram og hefur í rauninni skapað mestu óeininguna um sjávarútveginn á undanförnum árum, þ.e. auka það sem ég vil kalla millifærsluréttinn hjá stjórnmálaöflum landsins til þess að hlutast til um og grípa inn í atvinnugreinina. Svo virðist vera að ekki sé hægt að ná samstöðu um þá aðferð, því verði að bregðast við með einhverjum öðrum hætti.

Ég skynja alls staðar mjög mikla andstöðu við það frumvarp sem liggur fyrir í þeirri mynd sem það hefur verið kynnt almenningi og þeim sem áhuga hafa á, hvort heldur þeir hafa beina afkomu af greininni eða eru einskærir áhugamenn um sjávarútveg.

Reglan sem reynt er að styrkja í sessi í frumvarpinu og innleiða í stjórn fiskveiðimála er millifærsla vandamála með útkomunni enn stærri mínus fyrir alla heldur en áður var. Um þetta millifærslukerfi eiga stjórnmálamenn að véla, eins og við höfum séð á síðustu sólarhringum hér í þinginu, þar sem mikill ágreiningur hefur verið uppi í öllum þingflokkum um það hvernig eigi að taka á þeim viðfangsefnum sem uppi eru.

Í umræðunni um sjávarútveginn hefur oft og tíðum farið mikið fyrir því sjónarmiði að kappkosta verði að sem flestir geti fengið að veiða, nýliðun í útgerðinni sé svo bráðnauðsynleg og ekki ætla ég að gera lítið úr því, alls ekki. En kerfið sem við höfum byggt upp gerir þeim sem eiga best færin til þess, í ljósi þess hvernig þeir hafa hagað sér í sjávarútvegskerfinu, að koma sér inn sem nýliði á þeim grunni sem ég kalla millifærslukerfi vandamálanna, þ.e. þegar stjórnmálamennirnir eru með puttana á púlsinum í þessu og geta úthlutað takmörkuðum gæðum eins og þeim sýnist.

Ég vil hins vegar benda á í þessu sambandi þegar við ræðum sjávarútvegsmál að eitt er veiðar en annað er reynsla og hið þriðja er markaðssetning þeirra afurða sem þetta skapar. En sjónarhorninu og fókusinum er oftast nær í umræðunni fyrst og fremst beint að réttinum til þess að róa út á sjó og draga fisk á land. Ef við lítum yfir sviðið og íhugum breytingarnar í íslenskum sjávarútvegi á síðustu árum, þá eru á þessari hlið málsins ekki miklar breytingar í sjálfu sér að finna. Grundvallaratriðin eru enn fyrir hendi, þ.e. menn róa til sjávar, sækja fisk úr sjó og draga hann að landi. Stærstu breytingarnar í sjávarútvegi lúta að vinnslu aflans og markaðssetningu.

Í umræðunni um breytingar á fiskveiðistjórninni virðist mér oft að menn sýni ekki nokkurn einasta áhuga né hafi neinar áhyggjur af því. Í það minnsta hef ég aldrei heyrt neinn minnast á að bráðnauðsynlegt sé að stuðla að nýliðun í fiskvinnslu eða nýliðun í markaðssetningu. Þetta snýst alltaf um öngulinn og árina. Sjávarútvegur er bara allt annar atvinnuvegur í dag en hann var fyrir fimm árum, hvað þá 10 eða 20 árum.

Ég fordæmi þær aðfarir sem gerðar eru að fyrirtækjum sem hafa sérhæft sig í því að leggja saman alla þessa þrjá meginþætti í atvinnugreininni. Í umræðunni hér hefur borið í mínum huga allt of lítið á þeim áherslum sem lúta að því að gefa fólki skjól sem starfar í atvinnugreininni vítt um land, ekki til sjós, heldur í fiskiðjuverum og í öflugustu markaðsfyrirtækjum landsins. En í þeim tillögum sem hér liggja fyrir er því ágæta fólki kastað til og frá, ekki hafðar neinar áhyggjur uppi í þeim efnum og því síður eru menn að hugleiða hvað störf þess, fagþekking, leggur til þess að búa sem mestan arð úr þeim afla sem dreginn er úr sjó. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr sjómennskunni, langur vegur frá. Það stæði síst á þeim sem hér stendur að gera slíkt.

Ég veit að í því verki sem hér liggur fyrir eru flestir sem að því hafa komið með hundshaus. Það er engin almenn ánægja með þær tillögur sem liggja fyrir. Það er hins vegar eitt sem sameinar þá sem að þessu hafa komið, þ.e. að allir eru sammála um að gera þurfi einhverjar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. En flestir eru sammála um að þær tillögur sem hér liggja fyrir séu þess eðlis að engin sátt sé um þær. Við höfum þó á þessum tímapunkti náð þeim áfanga að þokkaleg sátt virðist vera um það og samkomulag að við ætlum okkur að gera breytingar á því fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum búið við undanfarin ár, en þá þarf að gæta allra sjónarmiða í því. En því miður hefur borið á því að það hefur ekki verið gert.

Ég nefndi það í andsvari í gær við hv. formann í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að það væri raunar einkennileg staða sem uppi væri ef maður lítur til umræðunnar eins og hún hefur verið á undanförnum árum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í þessum pólitíska slag málsins, Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið sagður helsti varðstöðumaður LÍÚ sem hefur verið svona ímynd alls hins versta af andstæðingum grunnreglunnar í fiskveiðistjórnarkerfinu, þá háttar svo til að sú breytingartillaga sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar mælir fyrir lýtur að því að LÍÚ sé gefin heimild til þess að vinna með beinum hætti að framkvæmd þess frumvarps sem formaðurinn mælti fyrir um í gær.

Ég fullyrði, forseti, að aldrei í margumræddri og átakasögu fiskveiðistjórnarkerfisins hefur komið fram önnur eins tillaga á Alþingi frá nokkrum stjórnmálaflokki með þeim sama hætti og hér birtist, að LÍÚ sé falið tiltekið verk við stjórn fiskveiða. Það er raunar alveg stórkostlegt að horfa upp á þetta og sérstaklega þegar það kemur úr þeim ranni sem raun ber vitni. Maður hefði frekar búist við, miðað við hvernig umræðan á undanförnum árum hefur verið og áróðursstríð, að slík tillaga ætti að koma úr allt, allt annarri átt en raun ber vitni um.

En það sem vil ég segja um þessi mál undir lok máls míns er að það ber allt of mikið á því í umræðunni, þegar ólíkir hópar setja fram hugmyndir eða einstaklingar eða hvað eina, að menn eru ekki með heildarhagsmuni þjóðarinnar undir í þeim efnum. Þetta er rifið og tætt í sundur á grundvelli átaka sem byggja á misþröngum hagsmunum. Við höfum séð það ágætlega í átökum síðustu daga hvernig m.a. útgerðarflokkar hafa tekist á. Við höfum séð hvernig einstaka landshlutar hafa verið að takast á, og fleiri aðila gæti ég nefnt. Þetta er ekki boðlegt lengur. Atvinnugreinin í heild sinni líður fyrir þetta. Þjóðin líður fyrir þetta.

Ég stóð í þeirri meiningu að samkomulag væri orðið um það að allir þeir aðilar sem tengjast þessu með beinum eða óbeinum hætti hefðu gert með sér samkomulag um að reyna að vinna að framgangi breytinga með öðru móti en raun ber vitni. Sá friður var rofinn með þessum frumvörpum. Þetta er gríðarlega illa unnið verk ef maður getur komist svo að orði. Það leggur ekki fyrir neitt einasta mat á því hvaða áhrif þetta muni hafa, hvort heldur er á atvinnugreinina sjálfa, þjóðina sem heild eða afkomu þjóðarbúsins eða hvernig við ætlum með þeim breytingum sem mælt er fyrir að auka hagsæld þjóðarinnar. Þegar við erum að ræða grundvallarstoð íslensks atvinnulífs getum við ekki leyft okkur að umgangast hana með þvílíku virðingarleysi. Ég vænti þess að hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd geri breytingar á milli umræðna á þessu máli.