Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 10:07:39 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum nú áfram umræðu um hið svokallaða litla mál sem ég reyndar mótmæli og hef mótmælt í ræðum mínum hér um sjávarútveginn að sé kallað svo. Mér finnst það vera öfugmæli. Núna eru rétt um tíu dagar síðan bæði þetta frumvarp og hitt frumvarpið sem hefur nú verið geymt til haustsins, sem betur fer, voru lögð fram. Ég held að það sé með ólíkindum, af því að við erum að ræða breytingar á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, að við skulum hraða okkur svona með það í gegnum þingið, ekki síst þegar enn liggja ekki fyrir nein efnahagsleg áhrif, útreikningar eða neitt, hvorki af þessu frumvarpi né hinu. Þá hlýtur maður að spyrja sig þegar fyrir liggur að það er samkomulag um að bíða með stóru heildarmyndina: Af hverju er ekki hægt að bíða með þetta mál fram til haustsins? Af hverju liggur svona á þessu máli? (Gripið fram í.) Það er bara eitt svar við því, það að stjórnarflokkarnir hafa ekki getað komið sér saman um þetta mál frekar en annað þannig að hvor flokkur um sig þurfti að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Vinstri grænir þurftu að fá aðeins í byggðapottana og Samfylkingin eitthvað táknrænt í tengslum við veiðileyfagjaldið. Þannig er þetta.

Sáttanefndin náði niðurstöðu allra hinna pólitísku flokka og það er rétt að geta þess að eingöngu LÍÚ fór gegn því sem var samið um í sáttanefndinni. Allir stjórnmálaflokkarnir sammæltust um að byggja á því kerfi sem nú er við lýði, fara í að skoða lengd nýtingarsamninganna sem að mínu mati verða að vera til lengri tíma en skemmri til að tryggja rekstraröryggi sjávarútvegsins, gegn ákveðinni endurskoðun á veiðigjaldi sem og því að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Um þetta eiga menn að geta sammælst.

Vegna þess að menn geta ekki beðið til haustsins vegna pólitísks metnaðar einstakra óþreyjufullra þingmanna þarf að troða þessu frumvarpi í gegnum þingið á lokadögunum. Það er enginn bragur á því þegar við upplifum hér að það eru settir tíu dagar til verksins, mál tekin út með töngum og ekki einu sinni í samkomulagi stjórnarmeirihlutans. Eins og þingmenn í stjórnarandstöðu sögðu varð enginn meiri hluti í sjávarútvegsnefnd út af þessu máli. Af hverju skyldi það vera? Af því að það er enn bullandi ágreiningur um þetta mál.

Af hverju er ekki hægt að bíða með þessi mál til haustsins til að fara yfir þau í sátt, til þess að fara yfir bæði hvernig við getum náð sem breiðastri sátt um sjávarútveginn, sem er nauðsynlegt, og ekki síður hitt að við fáum að vita hvað þetta kostar? Það er enginn sem getur sagt það, ekki einu sinni hv. þm. Kristján Möller sem er alla jafna nokkuð flinkur í sínum útreikningum, hann getur ekki sagt mér hver efnahagslegu áhrifin af þessu frumvarpi verða. Enginn getur það.

Það er óumdeilt að sjávarútvegskerfið sem við búum við hefur farið í gegnum erfiðar breytingar. Sjávarútvegspláss á landsbyggðinni sem og hér í þéttbýlinu hafa þurft að fara í gegnum sársaukafulla hagræðingu allt frá 1990. Þetta vitum við. Sjávarútvegskerfið sem við búum við, sem er vel að merkja ekki ríkisstyrkt eins og önnur kerfi sem tengjast fiskveiðistjórn, er ekki gallalaust en hefur sýnt fram á að það er arðbært, hagkvæmt og þjóðhagslega rétt. Ég spyr því: Af hverju er vaðið af stað til að þjóna óþreyjufullum þingmönnum og ráðherrum um stundarsakir með þetta mál?

Ég tek undir þá gagnrýni sem kom fram í máli hv. þm. Írisar Róbertsdóttur áðan um að menn væru að henda á milli sín hugmyndum, hugsanlega á servíettum, til að reyna að ná einhverri niðurstöðu um ákveðnar greinar á þessu frumvarpi. Ég mótmæli því verklagi. Ég var reyndar spurð áðan þegar ég kom hingað í pontu hvað suðvesturþingmaður væri að vilja upp á dekk. Mín krafa þegar kemur að sjávarútveginum er að ekki bara íbúar og þingmenn landsbyggðarinnar geti tjáð sig um sjávarútvegsmál, það er ekki þannig, ekki frekar en að íbúar Stavangers, olíubæjarins mikla í Noregi, eigi einir að geta tjáð sig um breytingar á olíustarfseminni í Noregi. Sjávarútvegurinn er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar, hann varðar alla Íslendinga og það hefur sýnt sig að það kerfi sem við búum við núna hefur leitt af sér margfalda hagræðingu innan greinarinnar og ekki bara það, heldur er stuðlað að því að svonefndur sjávarklasi, klasi fyrirtækja tengdum sjávarútvegi, hefur stóraukist og vaxið. Við sjáum fram á aukna nýsköpun, fjölda sprotafyrirtækja sem aldrei fyrr í tengslum við það að við erum með arðbært sjávarútvegskerfi sem hefur skilað því að núna starfa fleiri við greinina en áður. Þeim hefur vissulega fækkað sem tengjast veiði og vinnslu eingöngu en ef við tökum öll þau störf sem tengjast beint eða óbeint þessum svonefnda sjávarklasa eru þau 30 þús. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að allar breytingar á sjávarútveginum þýða að þetta snertir meira og minna alla landsmenn. Það er ekki boðlegt með fullri virðingu fyrir þingmönnum í Norðaustur-, Suður- eða Norðvesturkjördæmum að þeir taki þessi mál í sínar hendur og „víli og díli“ um þau.

Mín krafa er að sjávarútvegurinn sé arðbær og þjóðhagsleg hagkvæmur. Út frá því verðum við að miða. Þær breytingar sem við stöndum frammi fyrir í dag eru þær að það á að draga úr markaðslegum áhrifum, þeim jákvæðu áhrifum sem sjávarútvegskerfið hefur í dag, og fara meira í pólitíska miðstýringu, ekki síst stýringu á borð við þá sem sjávarútvegsráðherra boðar. Þetta er vond þróun og hana verður að stöðva. Hún er ekki byggð á sáttanefndinni. Ég held enn þá að við höfum tækifæri þrátt fyrir þá óbilgirni sem er að finna hjá stjórnarflokkunum, sérstaklega einstökum þingmönnum, til að ná sátt um þennan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar.

Það eru engar umsagnir sem mæla með þessum breytingum á sjávarútvegsmálum. Ég hef ekki enn þá fengið svar frá stjórnarþingmönnum við spurningu minni: Af hverju er verið að hraða þessu máli í gegn? Við vitum samt, eins og ég gat um í upphafi máls míns, að þetta er til þess að hvor stjórnarflokkurinn fái sína dúsu í þessu máli. En það er ekki miðað við hvaða áhrif þetta hefur á sjávarútveginn, aldeilis ekki.

Við sjáum að sú óvissa sem er í sjávarútveginum hefur stuðlað að því að fjárfestingar frá því að vinstri stjórnin tók við stjórnartaumunum hafa minnkað. Þær hafa hins vegar verið gríðarlega miklar í gegnum árin. Á síðustu missirum hefur fjárfestingum innan greinarinnar fækkað vegna þeirrar gríðarlegu óvissu sem vinstri flokkarnir hafa stuðlað að. Það er mikill ábyrgðarhluti að henda í loft og í rauninni sprengja allt það kerfi sem við höfum búið við og þá festu sem við höfum unnið að í gegnum tíðina á sársaukafullan hátt. Við sjáum hvernig byggðirnar hafa breyst en í heildina séð hefur samfélagið allt, þjóðfélagið allt, haft gríðarlega mikinn ávinning af þessu fiskveiðistjórnarkerfi.

Ég er ekki með þessu að segja að það sé óumbreytanlegt, síður en svo. Við sjálfstæðismenn höfum í gegnum tíðina, og það má gagnrýna það, meðal annars reynt að koma til móts við þær gagnrýnisraddir sem hafa heyrst vegna sjávarútvegsmálanna. Línuívilnun hefur verið komið á, krókaaflamark aukið og byggðakvóti settur á. Allt er þetta umhugsunarvert, hvort þetta hafi leitt til þess að við höfum enn arðbærara kerfi í dag eða ekki. Hvaða afleiðingar hafa allar þessar breytingar haft á fiskveiðistjórnarkerfið? Það er umhugsunarefni hvort það hafi stuðlað að því að við höfum öðlast meiri hagkvæmni og arðbærni út af fiskveiðistjórninni, en á móti kemur að það varð líka að hlusta á þá gagnrýni sem hefur verið hávær um fyrirkomulag fiskveiða, ekki síst á landsbyggðinni.

Ég segi aftur, þetta er ekki einkamál landsbyggðarinnar. Þeir þingmenn sem tilheyra landsbyggðinni hafa ekki einir rétt á skoðunum í þessu máli. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir er, held ég, eini talsmaður þessa máls eins og það er núna, a.m.k. eini þingmaðurinn sem var ekki með fyrirvara í þessu máli, en það er ekki þannig að við á suðvesturhorninu höfum ekki leyfi til að tjá okkur um málið. Ég ítreka að krafa mín er sú að fiskveiðistjórnarkerfið sé arðbært, þjóðhagslega hagkvæmt og stuðli að auknum samfélagslegum ávinningi fyrir allt þjóðfélagið. Það er ekki hægt að nota sjávarútvegsmálin sem einhvern spilapening á leikborði stjórnmálanna eða á milli byggðarlaganna. Það er ekki þannig og þess vegna fannst mér þessi spurning sem ég fékk frá einum stjórnarþingmanni áður en ég fór upp í púlt, þó að hún hafi verið sett fram í kerskni, hvað við á suðvesturhorninu værum að vilja upp á dekk og tjá okkur um sjávarútvegsmál, lýsa ákveðnu viðhorfi sem hefur ríkt allt of lengi.

Mér finnst ágætt að spyrja aftur spurningar sem ég hef ekki fengið svar við fyrst hv. þingmaður og formaður sjávarútvegsnefndar er í salnum: Af hverju má ekki bíða með þetta mál þegar svo til enginn mælir með breytingum á því og samþykkt þess núna? Það eru tíu dagar síðan málið var lagt fyrir þingið. Þetta er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar. Ég skil ekki enn þá af hverju þetta má ekki bíða þar til stóra málið hefur fengið umfjöllun. Ég skil það ekki. Það verður áfram umræða um veiðileyfagjaldið í stóra málinu. Það verður áfram umræða um byggðakvóta. Af hverju má þetta ekki bíða til haustsins þegar fjallað verður um sjávarútvegsmálin í heild sinni? Ég skil það ekki, síst núna þann þrýsting sem hefur verið á að reyna að afgreiða málið á þeim skamma tíma sem er til stefnu. Menn hentu á milli sín einhverjum hugmyndum í gærkvöldi og langt fram eftir nóttu um hvernig hægt væri að leysa meðal annars 2. gr. Það á bara að vísa þessu öllu til haustsins og láta alla stjórnmálaflokka vera ábyrga fyrir því að koma með stefnu sem sátt getur ríkt um. Vel að merkja, allir stjórnmálaflokkar komu að í því í sáttanefndinni að byggja upp ákveðinn ramma. Þetta er ekki sá rammi sem endurspeglar sáttanefndina, síður en svo.

Við erum með fiskveiðistjórnarkerfi sem aðrar þjóðir líta til sem fyrirmyndar, m.a. ESB, ekki bara aðildarþjóðir innan ESB heldur aðrar þjóðir, og þá er mjög vanhugsað að fara út í breytingar sem menn geta ekki einu sinni sammælst um í einum litlum minni hluta á þingi. Stjórnarflokkarnir gátu ekki komist að samkomulagi, einn hv. stjórnarþingmaður gat ekki skrifað undir álitið og þess vegna varð enginn meiri hluti í sjávarútvegsnefnd.

Þess vegna ítreka ég það sem ég hef sagt, það hefur ekki verið reiknaður út efnahagslegur ávinningur og áhrif af þessu frumvarpi. Það á að keyra þetta í gegn vegna þess að ákveðnir þingmenn eru hér óþreyjufullir, vilja setja mark sitt á breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þess vegna er verið að setja þetta í gegn í staðinn fyrir að bíða, átta sig á hvaða áhrif þetta muni hafa á greinina, hvaða áhrif á samfélagið allt. Þetta skiptir okkur öll máli, það er til þess að stuðla að betra samfélagi sem við höfum hér öflugt fiskveiðistjórnarkerfi.

Þetta mál er vanhugsað. Það er ekki bara vanhugsað, heldur lýsir þetta frumvarp þeirri firringu að mínu mati sem einkennir stjórnarsamstarfið allt. Þetta hefur að sjálfsögðu leitt til þess að tjónið er mikið af þeirri firringu sem ríkir við stjórnarborðið, firringu sem hefur leitt til tjóns fyrir samfélagið allt. Það verður að stöðva slíkt.