Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 10:37:14 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega alveg makalaust að heyra hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur segja að við sjálfstæðismenn viljum ekki breytingar á kerfinu. Það er eins og hv. þingmaður hafi bara aldrei verið inni í þingsal (Gripið fram í: Nei.) hlustandi á ræður, það er eins og hún hafi ekki hlustað á einn né neinn eða vilji ekki hlusta. Það er bara þannig.

Varðandi þá úttekt sem gerð var á strandveiðunum þá var gott að slík úttekt var gerð en hún mat ekki heildarefnahagsleg áhrif á samfélagið. Það var metið mjög þröngt. Það hefur enginn getað sagt mér enn þá hvaða áhrif þetta hefur á suðvesturhornið, norðausturhornið, sunnanmenn eða norðanmenn. Ekki neinn. Enginn stjórnarþingmaður getur sagt: Já, Þorgerður mín, hér eru áhrif þessara breytinga á frumvarpið. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Þetta er grunnatvinnuvegur þjóðarinnar. Þetta er ekki boðlegt. (Gripið fram í.) Menn geta komið hér og þóst gera einhverjar velviljaðar breytingar, en það er enginn sem kemur hingað — hvorki hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir né aðrir — og segir: Við viljum auka strandveiðarnar. Hvaðan á þá að taka þetta? Það á að taka þetta af þeim sem hafa keypt sig löglega í gegnum kerfið.

Það er ekkert mál að vera stjórnmálamaður sem ætlar bara að víla og díla og reyna að vera alltaf miskunnsami samverjinn hvar sem hann kemur, en það þarf að segja líka hvaðan menn ætla að taka kvótann, hvaðan menn ætla að taka það sem þeir ætla að færa öðrum.

Það er nákvæmlega svona birtingarmynd, sem mér hugnast ekki, sem verið er að koma hér upp. Það á að skófla þessu öllu á borð sjávarútvegsráðherra. Það er verið að auka pólitískt vald. Það er ekki það sem ég vil berjast fyrir í þessum málum. Þó að sjávarútvegskerfið núna sé ekki gallalaust og það er vel hægt að gera breytingar á því, þá vil ég ekki þessa pólitísku íhlutun sjávarútvegsráðherra, hverju nafni sem hann kann að nefnast hverju sinni. Það er vond þróun og hún er ekki þjóðhagslega hagkvæm, ekki fyrir einn eða neinn.