Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 10:39:09 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:39]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það hefði verið indælt ef þeir sem komu núverandi kvótakerfi á hefðu haft fyrir því að sýna þau vönduðu vinnubrögð sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talar svo ákaflega um núna. Það hefði verið ágætt ef menn hefðu einhvers staðar á þeirri leið farið í það að gera efnahagslega úttekt á áhrifum þess kerfis. Hins vegar sjáum við reynsluna af því. Það þarf ekki stórkostlegar úttektir eða djúpa hagfræði, það þarf ekki mikið annað en fara inn á vefsíðu Hagstofunnar til að átta sig á þeirri byggðaröskun sem átt hefur sér stað og sjá hvað er að gerast.

Núna er það þannig að sjávarpláss og lítil byggðarlög víða um landið eru komin að þeim mörkum að þau þola ekki meir. Það er nefnilega svo að þegar byggðum byrjar að blæða út þola þær það upp að vissu marki, svo kemur mjög krítískur punktur. Sá punktur, þeim þröskuldi, höfum við nefnilega náð varðandi margar byggðir núna. Það má því ekki dragast lengur að reyna að leiðrétta þetta óréttlæti og reyna að koma á einhverju samfélagslegu skikki á þetta mál.

Ég kvaddi mér hljóðs, frú forseti, til að ræða það frumvarp sem liggur fyrir hér og hefur verið lagt til umræðu, litla frumvarpið svokallaða um strandveiðar og byggðakvóta, aðallega til þess að gera grein fyrir fyrirvörum mínum við framhaldsnefndarálitið og þær breytingartillögur sem liggja fyrir og mælt var fyrir í gær.

Fyrirvarar mínir lúta kannski fyrst og fremst að tvennu. Annars vegar að þessari svokallaðri 2. gr. sem lýtur að framlagi uppsjávargeirans inn í byggðapottana á móti bolfiskvinnslunni. Gert er ráð fyrir því að ákveðið hlutfall af úthlutuðum aflaheimildum renni inn í þennan pott. Það er gert með jafnræðissjónarmið í huga vegna þess að bolfiskgeirinn hefur þurft að taka á sig miklar skerðingar á undanförnum árum, við vitum það. Þegar komið hefur til aflaskerðingar hefur það náttúrlega lent á bolfiskvinnslunni. Þegar við erum hins vegar að tala um það núna að leggja inn í þennan samfélagslega pott þá er komin fram sú eðlilega krafa að uppsjávargeirinn leggi inn í hann til jafns við hinn geirann.

Upp af þessu hafa sprottið vangaveltur og deilur auðvitað vegna þess að uppsjávargeirinn hefur ekki hug á að koma að þessu með þeim hætti sem þar er lagt til. Í því samhengi má minna á að í sáttanefndinni svokölluðu, sem hæstv. núverandi velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, stýrði á sínum tíma og oft hefur verið vitnað til, var fullkomin sátt um að svona skyldi að þessu staðið. Báðar útvegsgreinar skyldu leggja inn í þennan pott. Síðan hafa Landssamtök íslenskra útvegsmanna ályktað um þetta fyrir nokkrum árum og gott ef það hefur ekki verið áréttað síðan. Það er því samkomulag, að því er virðist, og hefur verið í greininni um þetta fyrirkomulag.

Hins vegar greinir menn á um það hvernig best skuli að þessu staðið. Ég tel að það gæti verið fyrirhafnarinnar virði að skapa ákveðna aðlögun í þessu efni, kannski að þetta verði gert á tveimur, þremur árum og að ákvarðanir vegna næstu fiskveiðiára, þ.e. 2012 og 2013 og síðan árið þar á eftir, verði endurskoðaðar í ljósi reynslunnar, hugsanlega að liðnu ári. Þetta finnst mér að gæti vel komið til greina.

Í nefndarálitinu er í sambandi við þetta talað um skiptinguna — eða eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Eftir að ráðstafað hefur verið í potta því sem kemur inn af þorski, ýsu, ufsa og steinbít verður aflamagni í öðrum tegundum skipt í þessar tegundir eins og mögulegt er. Það mun fara fram á sérstökum skiptimarkaði sem eftir atvikum verður settur á laggirnar af Fiskistofu og/eða af samtökum í útgerð.“

Þarna er augljóslega verið að vísa til þess skiptimarkaðar sem samtök í útgerð hafa reynslu af að starfrækja. En ég tel hins vegar óheppilegt og tek ekki undir það að þarna sé verið að tiltaka samtök í útgerð, útgerðarsamtök og teldi ekki eðlilegt að það færi inn í lagatexta. Mér finnst alveg nægilegt að Fiskistofa taki að sér einhverja framkvæmdaþætti á þessu í umboði ráðuneytisins en mundi vilja láta þar við sitja. Auðvitað hefur Fiskistofa síðan sjálfdæmi um það til hverra hún leitar um það og við hverja hún tekur upp samstarf. En ég tel ekki eðlilegt að við setjum það inn í lagatexta eða sem einhvern vilja þingsins að samtök í sjávarútvegi hafi ábyrgð á þessu í umboði ráðherra.

Síðan hefur verið nokkuð rætt um það sem kemur fram á bls. 3 í nefndarálitinu. Þar er verið að tala um ráðstöfun ákveðins hlutfalls tekna af veiðigjaldi og talað um að það renni til sjávarbyggða á grundvelli fjárstjórnarvalds við samþykkt fjárlaga og vakin sérstök athygli á því að þarna sé gert ráð fyrir ráðstöfun til sjávarbyggða en ekki einstakra sveitarfélaga. Ég tel eðlilegt í þessu samhengi að miðað sé við ráðstöfun til sveitarfélaganna. Öll sveitarfélög í landinu, held ég að ég fari rétt með, hafa sjávarbyggðir innan sinna vébanda, þeim væri það þá í sjálfsvald sett að úthluta eða ráðstafa þessu frekar til sjávarbyggðanna. Mér finnst ekki eðlilegt að við einskorðum það að þessu sinni við sjávarbyggðirnar eingöngu því að þetta lýtur að ráðstöfun tekna, tekna af veiðigjaldi. Við erum ekki að tala hér um úthlutun aflaheimilda.

Fyrst við erum að tala um samfélagslega uppbyggingu og samfélagsleg not á annað borð, þá held ég að eðlilegt sé að taka upp ákveðna valddreifingu og að gera sveitarfélögunum kleift að hafa þar umsýslu ásamt með ráðuneytinu.

Þetta eru þær helstu athugasemdir og þeir helstu fyrirvarar sem ég vildi gera grein fyrir, frú forseti. Að öðru leyti árétta ég það sem hefur komið fram í máli mínu fram að þessu, að ég held að mikilvægt sé að við afgreiðum málið fyrir þinglok. Sjávarbyggðirnar og strandveiðiflotinn allur á mjög mikið undir því að við klárum það með þeim hætti sem lagt er til í nefndarálitinu. Það er raunverulega búið að vísa öllum breytingum sem lúta að framtíðarskipulagi fiskveiðistjórnar inn í stóra frumvarpið og til þeirrar vinnu, þannig að við leggjum þann ágreining til hliðar eins og málið stendur núna, en leyfum þó þeim þáttum sem er brýnast að komist til framkvæmda og varða strandveiðarnar og byggðakvótann í sumar sérstaklega, að fá sinn framgang hér núna. Það eru ótalmargir sem eiga undir því. Mér finnst að sá hópur eigi það skilið að njóta vafans en gjalda ekki fyrir það þó að einhver meiningarmunur sé um framtíð fiskveiðistjórnar í sínu víðasta samhengi. Þetta mál varðar verulega hagsmuni og ég tel mikilvægt að það fái framgang.