Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 10:49:33 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:49]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur átt sér stað mikil samþjöppun og hagræðing í íslenskum sjávarútvegi. Sú hagræðing hefur að mörgu leyti náttúrlega komið greininni til góða, þó ekki eins mikið til góða og ætla mætti vegna þess að menn hafa ekki alveg farið vel með arðinn af veiðunum. Ég fagna því hins vegar ef menn eiga þess kost að hagræða og auka arðsemi greinarinnar, en það má ekki gerast án þess að það eigi sér stað ákveðin þjóðhagsleg hagkvæmni.

Byggðaröskunin er staðreynd. Blóðtaka sjávarbyggðanna er staðreynd. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd og bregðast við henni. Ég er ekki sammála því að sú hagræðing sem átt hefur sér stað í sjávarútvegi undanfarin 20 ár hafi eingöngu leitt til góðs. Hún hefur líka haft mjög alvarlegar afleiðingar sem við megum ekki loka augunum fyrir.