Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 10:50:43 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að Ragnar Reykás hefði ekki getað gefið mér betra svar við þessu. Þetta hljómaði svona: Að sjálfsögðu eigum við að hagræða og það er gott að hagræða og það er gott að það hafi náðst hagræðingarárangur í greininni sem óumdeilt hefur leitt til þess að við rekum afkomubesta sjávarútveg í heimi, um það er ekki deilt. En á sama tíma mátti það ekki vegna þess að það varð að halda lífi í byggðunum. Það var ekki hægt að fara báðar leiðir. Vandinn liggur auðvitað í því, eins og ég sagði áðan, að stjórnvöld brugðust í því að efla önnur atvinnutækifæri úti um land.

Af því að ég hef stuttan tíma vil ég koma með eina aðra spurningu til hv. þingmanns. Hún fjallar um að það er fjöldi manns sem hefur ekkert gert af sér annað en að spila eftir settum reglum í þessu kerfi, reglum sem núverandi stjórnarflokkar áttu meðal annars stóran þátt í að setja. Þetta fólk á ekki núna, samkvæmt hugmyndum stjórnarflokkanna, að njóta arðs af því þegar fiskstofnarnir vaxa. Það á að skilja þetta fólk eftir með skuldir sem það hefur stofnað til þegar það spilaði eftir þeim leikreglum sem voru settar en taka af því þá aukningu sem það var búið að kaupa nýtingarheimildir á. (Forseti hringir.) Hvað finnst hv. þingmanni um stöðu þessa fólks?