Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 11:00:09 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Já, hv. þingmaður misskilur mig. Ég var að spyrja um áhrifin af innleiðingu reglu samkvæmt 2. gr. á þær byggðir þaðan sem við vitum að aflaheimildir fara. Það væri ágætt að heyra það.

Í annan stað fagna ég því að hv. þingmaður tekur undir þær athugasemdir sem hafa komið um þetta ofboðslega framsal heimilda frá ráðherra til Fiskistofu. Ég hjó eftir því að hún gerði engu að síður ráð fyrir því að Fiskistofa þyrfti að semja við einhvern í framhaldinu. Á þá bara að fela þetta með því að taka heimildina út og gera svo ráð fyrir því í greinargerð eða annarri vinnu að Fiskistofa muni semja við LÍÚ um að útfæra þetta?

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig er þessi tiltekna prósenta fundin, 5,3%, og hvernig er reikningurinn á bak við þessa reiknireglu fundinn? Hvernig á að búa til þetta verð í skiptum á bak við þessa reglu?