Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 11:07:04 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja ræðu mína á því sem ég var að fjalla um í andsvörum við hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur áðan. Ég fagna því sem fram kom í mál hennar, að hún telur mikla þörf á að skoða þetta. Þó að hv. þingmaður vildi kannski ekki beita sér fyrir því mundi hún ekki standa í vegi fyrir því. Það skiptir að mínu mati ekki höfuðmáli hvort fresturinn stendur í tvo, þrjá mánuði eða hugsanlega í eitt ár. Aðalatriðið er að því verði vísað inn í heildarendurskoðunina á lögunum sem hefjast á í haust. Ef ég skil þetta rétt gildir það ákvæði fram í desember á þessu ári og ef sú endurskoðun verður búin í febrúar eða mars er það í fínu lagi. Aðalatriðið er að það taki ekki gildi fyrr en menn eru búnir að fara yfir það í heildarendurskoðun á lögunum. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður, formaður sjávarútvegsnefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, vildi koma í andsvar og reifa það aðeins við mig.

Ég tel mjög mikilvægt að það verði skoðað í nefndinni, sérstaklega í ljósi þess að þótt það sé ekki eðlilegt að hafa sambærilega tölu í krókaaflamarkinu eða aflamarkskerfinu, eins og ég benti á áðan, sem er 12% í aflamarkinu en 4% í krókaaflamarkinu, geta verið ákveðin rök fyrir því. Það sem mér finnst vert að skoða, og ég skora á hv. sjávarútvegsnefnd að gera það milli 2. og 3. umr., er að setja bráðabirgðaákvæði þar sem þessu ákvæði yrði vísað í heildarendurskoðun á lögunum eins og gert var í fyrra þegar menn ætluðu að vera búnir að fara í þá vinnu. Hún tafðist og þess vegna tel ég eðlilegt að brugðist verði við því og sett inn bráðabirgðaákvæði um að því verði frestað.

Það blasir við að það mun einungis hafa áhrif á eitt fyrirtæki á Suðurnesjunum. Það væri mjög dapurlegt ef við mundum ekki framlengja þetta ákvæði því að þá gæti staðan orðið sú að fyrirtækið yrði að selja frá sér heimildir sem einhverjir stórir hákarlar mundu þá væntanlega kaupa. Við vitum alveg hvernig ástandið er í greininni, á fjármálamörkuðunum, hjá fyrirtækjunum, þannig að það væru þá ekki einhverjir litlir aðilar í Grindavík sem keyptu þá, það yrðu hugsanlega einhverjir stórir sem keyptu þá út af svæðinu. Það væri ekki gott þar sem atvinnuleysið er mest á Suðurnesjunum, eins og við vitum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta verði tekið inn í endurskoðun á heildarlögunum. Ég hvet hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að skoða það sérstaklega. Mér láðist að vekja athygli á því í fyrri ræðum mínum og þar sem ég á ekki sæti í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd beini ég því vinsamlega til þess ágæta fólks sem þar situr.

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að fjalla frekar um það sem snýr beint að frumvarpinu sjálfu. Ég vek athygli á einu, ég var að lesa í gærkvöldi varðandi þingskapabreytingarnar sem fyrirhugaðar eru og búið er að leggja fram drög að þar sem þingskapanefndin svokallaða hefur fjallað um hverju sé mikilvægast að breyta. Nefndin fjallar þar ítarlega um framlengingarfrestinn og telur að betur fari á því að hafa hann á skilum vetrar- og vorþings en þó eigi síðar en 1. apríl, frekar en að miða hann við einn ákveðinn dag. Þá er rætt um það þegar ráðherrar koma með stór og umdeild mál inn í þingið eftir að framlengingarfresturinn er liðinn með það fyrir augum að fá málin tekin fyrir, þau rædd og jafnvel afgreidd á skömmum tíma. Slík vinnubrögð séu ekki til þess fallin að auka gæði lagasetningar.

Síðan langar mig að vitna í sömu grein á öðrum stað varðandi það sem kemur fram í meðförum þingskapanefndarinnar. Þetta er gert til að lagafrumvörp og þingsályktunartillögur frá ríkisstjórninni komi það tímanlega inn í þingið að hægt sé að fjalla um þau með eðlilegum hætti. Það er einmitt það sem við erum að vinna að á hinum endanum, þ.e. hvernig við eigum að breyta vinnubrögðunum í þinginu. Það verður að segjast eins og er að það er ekki til eftirbreytni hvernig þetta mál kemur inn í þingið. Það kemur hér mörgum vikum eftir að fresturinn er liðinn og er ítrekað í þingskapanefnd að það sé ekki til fyrirmyndar.

Síðan skulum við fara aðeins yfir að haft var samband við umsagnaraðila um frumvarpið seint á föstudegi, jafnvel á föstudagskvöldi, þegar sjómannadagurinn var að ganga í garð og hátíðahöldin byrjuð á mörgum stöðum og þeir beðnir að skila álitum um frumvarpið og mæta til fundar við nefndina á mánudagsmorgni. Það eru vinnubrögð sem við eigum ekki að viðhafa og það er ekki hægt að bjóða umsagnaraðilum upp á þau. Það kemur í ljós að þegar við fjölluðum um þetta mál og þegar búið var að mæla fyrir því, fór það fyrst í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þar voru þrír af fjórum nefndarmönnum stjórnarinnar, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, Helgi Hjörvar og Róbert Marshall, með fyrirvara á málinu og í raun breytist það í að vera fyrsta minnihlutaálit af því að það er einungis hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður nefndarinnar, sem er ekki með fyrirvara á málinu og flytur nefndarálitið hér.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gerði grein fyrir fyrirvara sínum og væntanlega gera hinir tveir hv. þingmenn það líka.

Það sem hefur gerst í meðförum hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er settar hafa verið fram tillögur og síðan fór málið aftur til nefndar og var skorið enn þá meira niður. Í raun hafa verið sniðnir agnúar af frumvarpinu í meðförum nefndarinnar eins og eðlilegt er. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég fagna flestum þeim breytingum sem búið er að gera á málinu í nefndinni. Til að mynda er búið að draga úr hækkun á veiðigjaldinu, úr 70% í 40%. Ég tel það jákvætt. Það er búið að taka út þriggja tonna ákvæðið sem mér finnst mjög jákvætt, sérstaklega út frá öryggismálum sjómanna. Það er búið að minnka pottana úr um það bil 11 þús. í 4.500 tonn og það er búið að breyta sérstöku ákvæði um tegundatilfærslu í löngu og keilu. Það tel ég vera spor í rétta átt. Það er líka jákvætt að búið er að koma inn að tegundatilfærslu er líka breytt í þá veru að nú mega ekki vera 2% í hverri tegund fyrir sig, heldur er það minnkað niður í 1,6% til viðbótar á móti þessum 30% sem útgerðunum er heimilt að gera tegundatilfærslu innan hverrar tegundar. Ég tel það jákvætt til þess að bregðast við þeim vandamálum sem verða þegar einstakar tegundir eru mikið notaðar í tegundatilfærslu.

Það eru ekki stórar deilur um þetta. Hins vegar er ég mjög ósáttur við, og ég leyni því ekki, hvernig 2. gr. hefur verið í sérstöku niðurskurðarferli, nánast í ákveðinni útvötnun í nefndinni. Ég er ekki sáttur við það vegna þess að í upprunalega frumvarpinu frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði að ákveðin jöfnun kæmi í pottana, samfélagslegu pottana eða byggðalegu pottana eða hvað sem við köllum þá. Í dag eru einungis fjórar tegundir settar inn í það allt saman og ekki er spurt að því hvort þessar tegundir verði skornar niður eða ekki, menn skulu alltaf þurfa að borga gjaldið í pottana. Við fórum með þorskkvótann úr 190 þús. tonnum niður í 130 þús. tonn, samt skulu þeir sem eru með bolfiskinn greiða í pottana, í hina samfélagslegu potta eins og við köllum þá stundum, en hinir sitja frítt fyrir utan.

Það var ákveðin jöfnun og það er líka mikilvægt að rifja upp að það er sátt innan greinarinnar um að ekki verði farið í þessa jöfnun, þ.e. að allir þeir sem starfa og eru með kvótabundnar tegundir muni leggja sitt af mörkum til að bregðast við því sem við ræðum hér, hvaða nafni sem við kunnum að kalla það. Það er hins vegar búið að útvatna þannig að það verði 1/3, það eru nýjustu tölurnar sem ég heyri, og taki gildi á þremur árum. Það er kannski rétt að fagna því að þá verði búið að stíga fyrsta skrefið, það er jákvætt, en ég hefði hins vegar viljað gera það öðruvísi. Ég ætla ekki að draga neina dul á það, svo það fari ekkert á milli mála, að þetta er umdeilt innan allra flokka, svo það sé alveg skýrt. Ég ætla ekki að fegra neitt í því sambandi, það er mikilvægt að menn tali um hlutina eins og þeir eru en reyni ekki að koma því á aðra.

Ég sagði áðan að í þessu frumvarpi væri í raun verið að auka við pottana um 4.500 tonn plús þessi 1.500 eða 1.900 tonn, hvað það verður, í strandveiðum á þessu ári, sem er ætlun hæstv. ráðherra að gera, sem hann á reyndar í fyrningum, eins og hann orðar það. Auðvitað er það ekkert öðruvísi en svo að hægt er að leggja það við vegna þess að þá væri hægt að úthluta því til annarra sem hafa aflahlutdeildina í dag.

Ég held að það sé dálítið mikilvægt að rifja það upp í þessari umræðu að ýsukvótinn er búinn að fara úr 100 þús. tonnum á rúmu ári, þ.e. á tveimur fiskveiðiárum. Nú kemur Hafrannsóknastofnun með tillögu um að hann fari úr 55 þús. tonnum niður í 37 þús. tonn. Enn kemur högg á bolfiskvinnsluna í landinu. Það er líka ágætt að rifja það upp að þegar við skoðum heildarsamhengi hlutanna er afkoma greinarinnar mjög fín, sem betur fer, en áberandi best hjá þeim fyrirtækjum sem láta minnst í hina samfélagslegu potta. Það eru bara blákaldar staðreyndir. Sem betur fer gengur þeim vel, ég fagna því, en eigi að síður er þetta svona.

Það vekur líka athygli mína að það er búið að ná sátt innan greinarinnar um hvernig þetta skuli gert og afgreiða það þar en samt sem áður ætla menn að þynna þetta út í 1/3 á þessu ári. Ég er ekki sáttur við að það sé gert en geri þó ekkert lítið úr því. Ég tek undir að það er þó búið að stíga fyrsta skrefið og það hefur ekki áður tekist. Fyrir það ber að þakka.

Mig langar líka aðeins að benda á, því að menn mega ekki rugla þessu saman, að sumir tala oft um að þetta sé eingöngu gert í uppsjávarveiði. Það er ekki svo, fjórar tegundir eru settar inn í þetta í dag; þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur. Mest er skerðingin í þorskinum, en það eru 20 aðrar tegundir sem setja ekkert og það eru ekki bara uppsjávartegundir, það eru karfi, grálúða og hitt og þetta, rækja, humar — reyndar er rækjan komin út úr því núna, en allar kolategundir og þar fram eftir götunum. Það er því ekki eingöngu verið að tala um uppsjávartegundirnar. Það eru bara þær tegundir sem eru þarna fyrir utan og þess vegna er ég mjög ósáttur við að það sé gert en virði þó að þetta er fyrsta skrefið í rétta átt.

Það er mjög athyglisvert að skoða það ef menn hefðu farið upprunalega leiðina, af því að menn tala um að mikil færsla sé á milli. Hefði upprunalega hugmyndin verið valin sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði til — ég held að það hafi verið eina greinin sem ég var virkilega sammála um að væri í frumvarpinu, enda búinn að flytja frumvarp um það af því að mér finnst það vera jafnræðismál, sanngirnismál — hefðu samt sem áður þessar fjórar tegundir sett inn tæp 12 þús. tonn, en úr hinum 20 tegundunum hefðu komið um 6 þús. tonn, þ.e. úr 20 öðrum tegundum, þannig að þær settu inn 1/3.

Nú er það þannig að þeir setja 2 þús. tonn í staðinn fyrir 6 þús., þeir fá þriggja ára aðlögunartíma. Það geta verið ákveðin rök fyrir því þó að ég sé ekki sáttur við það, ég ítreka það enn og aftur. Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög sérkennilegt og það hefur verið upplýst í þessum stóli að forustumenn greinarinnar hafa sagt að þetta væri það sem þeir væru með. Í aðalfundarályktunum til fjölda ára, stjórnarsamþykktum, hefur verið lagt til að gera þetta svona, en síðan þegar á reynir virðist ekki vera hægt að fylgja því eftir.

Ég fagna því sem gert er. Ég fór vel yfir það í fyrri ræðum mínum við 1. umr. um málið að ég var rosalega hugsi yfir skiptingunni á veiðileyfagjaldinu. Það komu reyndar mjög afgerandi athugasemdir frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem menn töldu þetta hugsanlega stangast á við stjórnarskrána. En hvað um það, það er búið að taka það út úr þessu frumvarpi og setja það inn í almennt ákvæði. Ég er ekki viss um að það hafi verið skynsamlegt, í fyrsta lagi vegna þess að þá væri kannski ekki þjóðarsátt um greinina. Við þurfum að ræða það, þó að ég komi úr sjávarplássi, hvernig við ætlum að skipta gjaldinu út frá aðgangi að auðlindinni. Auðvitað er eðlilegast að því sé skipt jafnt á milli allra, en þá verður það líka að gerast samhliða þessu. Margir hv. þingmenn hafa tekið undir það með mér að þá verða allir að borga auðlindagjald af þeim auðlindum sem þeir nýta á hverjum stað, t.d. þeir sem fá að nýta heita vatnið í Reykjavík. Það er þjóðarauðlindin og þá vil ég eiga jafnmikið í þeirri auðlind og til að mynda þeir sem búa á þessu svæði eiga í sjávarauðlindinni. Þá greiða allir eðlilegt gjald fyrir notkunina eða aðganginn að auðlindinni og þá getum við ekki skipt því upp með þessum hætti. Mér finnst til dæmis sérkennilegt að við tökum bara einn landshluta, þá er misskipt á milli byggðarlaga þótt það séu kannski ekki nema nokkrir kílómetrar á milli þeirra. Kannski er eitt byggðarlagið með iðnaðarstarfsemi sem heldur við sjávarútveginum í hinu byggðarlaginu, en þá er því skipt svona af því að það er annað sveitarfélag.

Ég held að það sé ekki skynsamlegt. Ég held líka að það hefði verið fyrirséð, af því að við erum með Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, að hann hefði brugðist við og rétt þetta af. Við værum þá hugsanlega að búa til eitthvert vandamál sem yrði leyst á öðrum vettvangi og yrði jafnað út. Ég tel að það sé betra að gera það svona og taka þá af allan vafa um að þetta stangist á við stjórnarskrána.

Þá langar mig aðeins að koma inn á eitt mál á síðustu mínútunum í ræðu minni og hvetja hæstv. ráðherra, hv. þingmenn, varaformann og formann nefndarinnar, sem tekið hafa undir gagnrýni mína í umræðu um þessi mál sem snýr að strandveiðunum.

Skiptingin í dag er mjög óréttlát, það er ekkert hægt að deila um það. Á svæðunum er mjög mismunandi hversu miklu er hrúgað inn á þau. Við sjáum bara á fyrsta mánuðinum að á einu svæði fá menn að róa í fimm daga og á öðru svæði ná þeir ekki kvótanum, eiga jafnvel um 30% eftir af honum. Það er vitlaust gefið. Til að mynda eru á svæði B 85 leyfi, þar er úthlutað 355 tonnum. Á svæði C eru 86 leyfi, þar er 231 tonn. Búið er að ræða mikið í morgun um áhrif kerfisins á Vestfirði. Mér finnst ekkert réttlæti í því að þeir Vestfirðingar sem eru á strandveiðum fái að róa í fimm daga þegar aðrir fá að róa allan mánuðinn. Þess vegna vil ég beina því góðfúslega til þeirra sem um málið véla að mismunurinn verði leiðréttur því að þetta er mjög ósanngjarnt. Verði þetta að lögum er mikilvægt að það verði skoðað í heildarsamhenginu þegar bæta á við strandveiðarnar.

Því til viðbótar er mikilvægt að rifja upp, en það gleymist í öllu þrasinu og arginu og garginu, að þegar strandveiðarnar voru settar á árið 2009 var ákveðið að setja 4 þús. tonn af þorski. Strandveiðarnar voru reyndar settar á seinna á tímabilinu, þær byrjuðu seinna vegna þess að menn náðu ekki að klára málið fyrir maímánuð. Þá var tekin ákvörðun um að helmingurinn færi úr byggðakvótanum, þ.e. 1.955 tonn. Ég held að ég muni þessa tölu alveg rétt, það voru um 50%. Ég held að við þurfum líka að skoða það betur þegar búið verður að búa til byggðapottana og enn verið að bæta í þá — ég veit að menn hafa talað um að skoða áhrifin af því, af því að það er töluvert um að þessu sé smurt í þunnu lagi yfir alla þannig að það náist að eyða nánast öllum þessum kvóta. Ég tel mjög mikilvægt að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd skoði sérstaklega hvernig þetta er gert. Það er mikilvægt, mínu viti, að hafa ákveðinn pott til að geta brugðist við þeim aðstæðum sem upp geta komið á einstaka stað. Það hefur alla tíð verið skoðun mín, það er mjög mikilvægt að það sé fyrir hendi. En við megum ekki þynna það út eins og gert hefur verið.

Að lokum vil ég segja, virðulegi forseti, að ég las fyrir örfáum dögum á bb.is nokkuð sem ég hafði grun um, þ.e. að þeir sem eru á strandveiðunum séu 40% af þeim sem selt hafa frá sér varanlegar heimildir. Ég held að það sé ekki pólitískur ágreiningur um það í þessum sal að það var ekki tilgangurinn með því sem ákveðið var. Það eru hins vegar staðreyndirnar sem blasa við og er nokkuð sem verður að skoða. Ég held hins vegar að það sé erfitt að bregðast við því héðan af, það var hugsanlega hægt fyrsta árið. Ég held að það sé mikilvægt að menn skoði þetta í heildarsamhenginu. Ég hvet hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að fara sérstaklega yfir þá hluti sem ég hef nefnt, sérstaklega það sem snýr að þessu eina fyrirtæki í krókaaflamarkskerfinu á Suðurnesjum.