Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 11:31:34 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það áðan í málefnalegri ræðu, ég vildi bara nefna það og þakka fyrir það, að ekki væri mikið jafnræði í úthlutun í strandveiðum og hvernig þeim væri skipt upp í svæði, og nefndi hugmyndir um að endurskoða það. Ég hef lýst því áður að ég vil gjarnan skoða hvernig því verði fyrir komið þegar fram fer endurskoðun á heildarlögunum. Ég tel að hægt sé að gera þetta með öðrum hætti, jafnvel þannig að landið verði allt eitt svæði og fundin verið út reikniregla miðað við magnið sem fer til strandveiða og fjölda báta og deila þessu á tímabil með einhverjum hætti, t.d. tvær vikur. Ég held að það kæmi miklu betur út. Þá er ekki verið að ýta á að litlir bátar fari í alls kyns veðrum í kapphlaup við stærri báta eins og stundum hefur gerst, sérstaklega fyrst á vorin.

Hv. þingmaður talar um það allir eigi að greiða inn í jöfnunarpotta og það muni ekki hafa afleiðingar fyrir þær greinar sem greiða ekki í pottana í dag. En hvaða afleiðingar telur hv. þingmaður að það geti haft fyrir greinarnar sem greiða í pottana núna ef þær taka á sig enn hærri eingreiðslu ef aðrir koma ekki inn í myndina, ef á þær bætist að greiða í samfélagspottana og hinir koma ekki inn? Einnig vil ég spyrja hvort hv. þingmaður telji að þörf sé á þessum samfélagslegu pottum miðað við reynslu síðustu 20 ára.