Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 11:38:08 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði það í ræðu minni áðan að við skyldum bara tala um hlutina eins og þeir væru. Ég hef haft þá skoðun, í mörg ár, um að það þurfi að jafna í pottana, sérstaklega í ljósi þess að sumir þeirra eru alltaf að stækka en setja þarf inn í þá sem eru skornir niður. Mér finnst það bara óréttlæti. Ég minni bara á að fólk í greininni er sammála um það. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því og viðurkenni það bara. Ég sagði í ræðu minni áðan: Nú er verið að stíga þetta fyrsta skref þótt ég hefði viljað hafa það stærra. Það er þó verið að stíga það, það ber að virða, ég geri það. Ég verð líka að horfa á staðreyndir. Staðreyndirnar eru þessar: Þetta var ekki gert meðan minn flokkur var í stjórn, það er bara staðreynd. Það þýðir ekkert annað en að viðurkenna staðreyndirnar þegar þær blasa við manni. Þetta var ekki gert þá. Nú er verið að stíga fyrsta skrefið. Menn hafa náð ákveðnu samkomulagi þvert á flokka. Það er fyrsta skrefið. Það ber bara að virða og ég geri það.

Hvað varðar skiptinguna á strandveiðunum höfum við rætt það, ég og hv. þm Lilja Rafney Magnúsdóttir, á fyrri stigum málsins. Það er að ég held hlutur sem við verðum að skoða í rólegheitunum. Ég held hins vegar að menn gætu hugsanlega deilt þessu niður á fjölda leyfa á hverju svæði. Menn þyrftu hugsanlega að skoða hvort hægt væri að hafa eitt svæði. Ég tel það möguleika vegna þess að veiðarnar byrja að sunnanverðu, svo færast þær til, þannig að það er spurning hvort það væri góð lausn. Það eru bara hugmyndir. Aðalatriðið er að ná fram jöfnun og því sem er verið að gera, hvort það er gert með þessum hætti eða einhverjum öðrum. Hugsanlega mætti ræða að setja einhverja fasta daga fyrir menn. Þá yrði það að vera alveg á hreinu að það mætti aldrei framselja þá og aldrei mætti koma upp hagræðingarkrafa um að sameina dagana. Það verður að vera alveg skýrt frá fyrstu tíð. En það er bara hlutur sem við verðum að þróa og ræða og læra af reynslunni.