Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 11:40:18 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:40]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það, við þurfum að læra af reynslunni varðandi svæðaskiptinguna í strandveiðunum og hvernig strandveiðarnar hafa reynst yfir höfuð. Reynslan er, eins og ég sagði áðan, besti kennarinn. Ég er að bara að velta því fyrir mér hvort hv. þingmaður vilji þá taka höndum saman með mér og öðrum sem höfum áhyggjur af þessari svæðaskiptingu og vinna með okkur að því að gera tillögur til hæstv. sjávarútvegsráðherra um það hvernig þessu verður best fyrir komið. Ég held að það væri mjög gott ef menn gætu teygt sig yfir flokkagirðingar og skotgrafir og reynt að finna lausn á þessu máli. Það er auðvitað ekkert vit í því þegar eitt svæði klárar að veiða það sem fellur í þess hlut á innan við viku. Það eru kannski fjórir túrar á meðan aðrir geta verið í rólegheitum og allsnægtum að dóla sér á sínum strandveiðum einhvers staðar sunnar, t.d. við Suðurland, það er auðvitað nokkuð sem þarf að leiðrétta.

Aðeins í sambandi við uppsjávarfiskinn og framlagið í samfélagspottana, svo ég haldi mig aðeins við það; eins og hv. þingmaður nefndi og ég var reyndar búin að nefna líka í ræðu minni var sátt um það innan greinarinnar að gera þetta eins og upphaflega var lagt til í frumvarpinu. Getur þingmaðurinn svarað því af hverju sú sátt rofnaði? Veit þingmaðurinn það?