Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 11:42:05 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi samráðið held ég að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkur öll grein fyrir því að allir eru tilbúnir til sátta og samstarfs um að gera ákveðna hluti, eins og hv. þingmaður bendir á varðandi strandveiðarnar. Ég hef sagt það í mörgum ræðum að ég telji mjög mikilvægt að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vinni að sátt. Þeir fulltrúar okkar sem sitja þar, hv. þm. Jón Gunnarsson og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, eru ekki síður til þess fallnir en sá sem hér stendur að vinna að einhverjum sáttum. Aðalatriðið er að menn ræði málin efnislega, málefnalega og setji sig niður og læri af þessu.

Svo ég klári þetta með strandveiðarnar held ég að við þurfum bara að læra af þeirri reynslu sem orðið hefur, líka af öryggissjónarmiðum. Við vitum að ráðherra er búinn að færa til eina línu eftir að þetta gerðist. Mér virðist það vera til heimabrúks, þ.e. hann færir þarna inn á ákveðnu svæði. Það væri mjög gott ef hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd skoðaði það.

Hv. þingmaður spyr mig um sáttina og hvað gerðist í því rofi sem varð í ferlinu. Ég veit ekkert um það. Ég veit bara að ég sit ekki í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Það kom tillaga frá meiri hluta hennar að fara þessa leið. Mönnum hefur kannski fundist þetta vera of bratt eða að það þyrfti að skoða þetta og gera þetta á lengri tíma. Eflaust liggur eitthvað svoleiðis að baki því. En ég ítreka það að þetta er þó fyrsta skrefið. Þó að ég hefði viljað stíga stærra skref er þetta fyrsta skrefið og fyrir það ber að þakka. Ég geri það að minnsta kosti vegna þess að mér finnst það vera réttlætismál.

Það kemur líka fram, eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði áðan, að fyrirkomulagið verði e.t.v. endurskoðað þegar reynsla verður komin á það. Ég tel það ekkert vandamál. Menn hafa bent á í umræðunni að ígildin séu vitlaus. Þau eru þá akkúrat í þá átt sem er hagkvæmari fyrir þessar greinar en hinar. Það eru ekki uppsjávartegundirnar, það eru þessar 20 tegundir aðrar sem eru þar fyrir utan. Það er mjög mikilvægt að við gleymum því ekki.