Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 12:05:23 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar grannt er hlustað á ræðu hv. þingmanns finnast þar eiginlega engar efnislegar athugasemdir í sjálfu sér við þær greinar sem frumvarpið kveður á um enda eru þær einfaldar og ekki margar. Sumar eru sjálfsagðar og mikilvægar leiðréttingar og endurbætur sem ég veit að allir eru sammála um. Það er alveg hárrétt sem sagt var um 2. gr. þar sem fjallað er um hvernig útgerðirnar í heild leggi til í þær samfélagslegu hlutdeildir sem þegar eru til staðar og einnig þær sem gætu komið inn.

Ég heyrði ekki heldur í máli hv. þingmanns að hann væri andvígur því að þessar samfélagslegu hlutdeildir væru til staðar. Að sjálfsögðu er alveg hárrétt að endurmeta tilgang þeirra og stöðu eins og allt annað í sjávarútveginum en ekki að þær séu ekki til. Ég held að við séum hjartanlega sammála um það.

Ég vil spyrja hv. þingmann um 2. gr. Næsta fiskveiðiár hefst 1. september. Það sem á að koma til framkvæmda fyrir 1. september þarf að afgreiðast núna sem lög. Er hann ekki sammála mér um að það sé í raun mikilvægt að fyrsta skref í þessum aðgerðum sé stigið nú, að allar útgerðir komi saman að þessum hlutdeildum, svo við getum hafið þá vegferð þegar nýtt fiskveiðiár hefst 1. september? (Forseti hringir.)