Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 12:09:55 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara árétta og taka undir með hv. þingmanni að ein af stærstu réttlætiskröfum og ábendingum sem komu fram í endurskoðunarhópnum um stjórn fiskveiða var einmitt að þessi jöfnun kæmi sem allra fyrst til framkvæmda. Hversu hratt er stigið í þeim efnum er þingsins að ákveða. Í ljósi þeirra miklu áherslna sem komu fram bæði þar og hjá samtökum allra sem tengjast útgerð á að þessi skref væru stigin og að menn voru sammála því að þessi vegferð yrði hafin fannst mér bæði rétt og skylt að bregðast við því og leggja fyrir Alþingi að við mundum stíga þau skref eins hratt og fljótt og nokkur kostur væri og þingið samþykkti. Þess vegna legg ég þetta afdráttarlaust til og tel eins og hv. þingmaður að hefja eigi þessa vegferð strax. Það væri best og sanngjarnast gagnvart öllum aðilum. Því er það lagt til. Ég heyri að hv. þingmaður er mér í raun sammála um þetta.

Hitt skiptir líka máli sem hv. þingmaður minntist á að byggðakvótinn var nýttur á síðastliðnu ári. Það er alveg hárrétt. Það var gert til að koma til móts við sjávarbyggðir landsins og treysta atvinnuástand þar. Ég fullyrði að í mörgum sjávarbyggðum ræður hann úrslitum um hvort hægt sé að halda uppi atvinnu, útgerð og fiskvinnslu þannig að byggðarlagið standi af sér erfiðleika og geti nýtt sér auðlindina.

Strandveiðiflotinn og (Forseti hringir.) úttektin á strandveiðunum á síðastliðnu ári lýsti mjög jákvæðum atvinnu- og byggðaáhrifum strandveiðanna og ég vil því (Forseti hringir.) árétta hvort tveggja, frú forseti.