Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 12:36:22 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:36]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við eigum að vanda okkur í lagasetningu. Við eigum að vanda okkur sérstaklega vel þegar kemur að því sem varðar landsmenn og lögin sem þeir eiga að fara eftir. Meginskylda okkar þingmanna er að vanda vel til þeirra verka sem hér eru gerð og varða lagasetningu.

Umræðan hefur þó skilað þeim árangri að menn eru að verða æ meira sammála um meginbreytingarnar sem þarf að gera í fiskveiðistjórnarkerfinu og lúta að tímabundnum afnotarétti, veiðigjaldinu og ákveðnum leiðum í þessum pottagöldrum sem hv. þingmaður nefndi svo. Ég tek ekki endilega undir nafngiftina sem slíka en hef hana eftir hv. þingmanni.

Ég hef viljað fara hægt fram í strandveiðum, byggðapottum og félagslegum aðgerðum í breytingunum sakir þess að efnahagslegar afleiðingar þeirra og efnahagsleg áhrif liggja ekki fyrir. Ég tel í sjálfu mjög eðlileg viðbrögð að slá mörgu af þessu á frest. Ég hef þar t.d. nefnt 2. gr. minna frumvarpsins sem ég tel eðlilegt að fresta og taka með inn í umræðuna um meginfrumvarpið vegna þess að þar er um að ræða kerfisbreytingu og meginfrumvarpið fjallar meira um kerfisbreytingar en minna frumvarpið. Mér finnst því ekkert athugavert við að menn staldri við og hægi á ýmsu í þessu ferli.

Við erum að ná saman um meginleiðir. Það sem út af stendur þarf að skoðast betur. Þetta er mjög flókið í útfærslu og hefur mismunandi áhrif (Forseti hringir.) á byggðir og því tel ég mjög eðlilegt að við förum okkur hægt. Ef við erum ekki sátt við útfærslur sem hafa mjög mikil (Forseti hringir.) áhrif á fólk og fyrirtæki eigum við að fara okkur hægar en hraðar.