Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 13:08:39 (0)


139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[13:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að menn sitja hér víða, m.a. í sófa og hornum, og eru heilmikið að tala. Ég veit reyndar ekki um hvað þeir eru að tala en stundum heyri ég orðaslitur, tonn, 1.500, 300 o.s.frv. Ég veit ekki hvað þeir eru að gera en ég hugsa að þessi ágiskun hv. þingmanns gæti verið rétt.

Hann sagði áðan að menn væru að makka um ýmsa hagsmuni, vonandi hagsmuni þjóðarinnar. Ég spyr hv. þingmann: Getur hann útskýrt fyrir mér um hvaða hagsmuni þjóðarinnar menn þurfa að makka? Ef það eru hagsmunir þjóðarinnar, tala menn ekki um þá í ræðustólnum? Geta menn einhvern tímann makkað um einhverja hagsmuni sem tengjast hagsmunum þjóðarinnar? Eru menn ekki alltaf að makka um einhverja sérhagsmuni sem eru öndverðir við hagsmuni þjóðarinnar? Þegar einhverjum einum er hleypt fram fyrir í röðina er einhver annar sem líður, þ.e. heildin líður fyrir það.

Ég hjó eftir þessu orðalagi og varð dálítið hvumsa við og ósáttur vegna þess að ég hef alltaf talið að sérhverjir sérhagsmunir skaði heildarhagsmunina.