Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 17:16:11 (0)


139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa staðfest hagkvæmni kvótakerfisins. Ég veit að hann hefur fylgst nógu lengi með til að muna þá tíma þegar aðgangurinn var frjálsari en nú gildir, þegar fjárfestingin var allt of mikil og þegar bæjarútgerðirnar voru allar á hausnum, og útgerðin almennt, og þegar aflahlutdeildin var býsna lítils virði, rétturinn til að fara til veiða vegna þess að það hafði enginn neitt upp úr þessu, þegar menn settu lögin árið 1990 til að takmarka aðganginn, reyna að draga úr fjárfestingunni og auka hagkvæmnina. Er verið að halda því fram að menn hafi þá ekki gert sér grein fyrir því að kerfið hefði skuggahliðar? Þvert á móti. Hér stóð þáverandi sjávarútvegsráðherra og sagði: Það er grundvallaratriði og afar mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að þetta mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir margar byggðir. Hagsmunir heildarinnar réttlæta þetta, þeir hagsmunir okkar allra að sækjast eftir meiri arðsemi veiðanna. Það var réttlætingin við frjálst framsal, og hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra voru þá í þingsal og greiddu atkvæði með frjálsa framsalinu vitandi að það mundi hafa alvarlegar afleiðingar.

Hvar eru heimildirnar í dag? Þær eru í byggðunum. Er það óheppileg afleiðing og nokkuð sem við þurfum að takast á við í þingsal til að bregðast við þegar aflaheimildir fara jafnvel í heilu lagi frá einu byggðarlagi? Að sjálfsögðu. En eru strandveiðarnar svarið við því? Nei, því fer svo fjarri.

Ég held að það væri hollt fyrir hæstv. utanríkisráðherra að kynna sér aðeins hvernig atkvæði féllu í þessari nefnd Sameinuðu þjóðanna sem hann vísar til. Þeir sem hafa eitthvert vit á og reynslu af fiskveiðum í þeirri nefnd voru á okkar bandi. Hinir sem eru einhvers staðar inni í miðri Afríku (Forseti hringir.) og annars staðar og hafa ekki hundsvit á fiskveiðum voru í einhverjum mannréttindaleik. Við erum ekki bundin af þessari niðurstöðu.