Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 17:20:17 (0)


139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:20]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Staðreynd máls er að formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins lögðu fram tillögu til breytinga á stjórnarskránni til að gera þetta sem hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í.) vill ekki kannast við. (Gripið fram í.) Það er bara staðreynd málsins (Forseti hringir.) og það hefur ekki verið efnislegur ágreiningur —

(Forseti (ÁRJ): Hafa hljóð.) (Gripið fram í.)

— um að vel mætti koma slíku ákvæði fyrir í stjórnarskránni heldur um orðalag í raun og veru og meira að segja okkar færustu lögfræðingar hafa ekki allir verið á einu máli þar um. Ég hef margoft lýst mig reiðubúinn að vinna að því að slíkt ákvæði gæti farið í stjórnarskrána en mér er ekki sama hvernig það lítur út.

Hæstv. utanríkisráðherra heldur því fram að hagsmunir útgerðarinnar séu með einhverjum hætti andstæðir hagsmunum almennings í landinu eða fólksins í byggðunum. Ég er hér til að reyna að opna augu ráðherrans og annarra fyrir því að þeir fara saman. Ef útgerðinni gengur illa gengur byggðunum illa, þá tapar fólk vinnu og launin verða lág. Þegar útgerðinni gengur betur getur hún ráðið til sín fólk, borgað hærri laun, skilað hærri sköttum til ríkisins og samfélagið blómstrað. Þetta er það sem við sjáum. Gamli tíminn var þessi sem hæstv. ráðherra virðist ekki lengur muna. Við höfum færst inn í nýja tíma þar sem útgerðin stendur nokkuð traustum fótum. Þegar (Gripið fram í.) málin eru skoðuð af sanngirni sjá menn auðvitað að í því kerfi sem hér hefur gilt undanfarna áratugi hafa verið ýmis úrræði í lögum og ég rakti það í ræðu minni, 12 þús. tonn í ýmsar aðgerðir fyrir sjávarútvegsráðherra til að koma til móts við tímabundinn vanda í einstökum byggðarlögum. Að sjálfsögðu þarf að hafa slíkt svigrúm í löggjöfinni. Ég er ekki að mæla gegn því. Mér finnst ráðherrann ganga allt of langt, hann er að tvöfalda heimildirnar. Þetta er allt of mikið (Forseti hringir.) og hefur ekki verið réttlætt hér.