Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 17:24:26 (0)


139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók fram í fyrri ræðu minni að ég stend ekki hér til að mæla gegn byggðakvótum eða sértækum úrræðum. (KLM: Gott.) Ég hef vakið máls á því oftar en einu sinni í dag að slík úrræði hafa lengi verið í löggjöfinni og ég hygg að byggðakvótanum hafi verið komið á í stjórnartíð okkar á sínum tíma. (Gripið fram í.) Þess vegna er ekki óeðlilegt að fulltrúi okkar í sáttanefndinni hafi skrifað upp á það. Hann var líka með sína sérstöku bókun, ég vek athygli á því, þar sem áhersla var lögð á að þessu þyrfti öllu að stilla í hóf.

Inntak ræðu minnar áðan var að menn ganga allt of langt. Allt of hátt hlutfall heimildanna fer inn í miðstýringarvald í gegnum sjávarútvegsráðuneytið og það skortir alla réttlætingu á því að ganga á hlut þeirra sem eru í kerfinu.

Menn tala um skuggahliðar. Það kemur í ljós þegar þessi tvö frumvörp koma frá ríkisstjórninni að stjórnarflokkarnir eru að reyna að ná til sín pólitískum ávinningi á forsendum þeirrar óánægju sem hér hefur verið gerð að umtalsefni.

Hvernig gekk? Til hamingju með árangurinn. Frábærar viðtökur, ekki satt, við báðum frumvörpunum? Ekki einn einasti aðili í útgerð í landinu mælti með þessu, ekki ASÍ, ekki SA. Hver er núna að hrópa húrra fyrir ykkur? Það er nefnilega dálítið auðvelt að standa upp á fundum og tala um óréttlætið þegar verið er að skapa reglur til nýtingar á takmarkaðri auðlind, en þegar á að útfæra það, búa það í frumvarpsform og útskýra fyrir þeim sem eru í kerfinu í dag og hafa lagt nótt við dag til að koma þar undir sig fótunum og fjárfest mikið að þeir þurfi nú að víkja til hliðar vandast málið, ekki satt? Er ekki nógur (Forseti hringir.) vitnisburður það sem hefur gerst eftir að þessi tvö frumvörp komu fram?