Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 17:48:00 (0)


139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Frumvörpin og stóra frumvarpið sem nú er til umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd byggist að sjálfsögðu á grunninum sem lagður var með störfum stóru nefndarinnar eða sáttanefndarinnar. Það er sú meginniðurstaða sem þar teiknaðist upp að horfa til þess möguleika að ganga frá málinu í formi nýtingarsamninga til afmarkaðs tíma og búa um hliðarráðstafanir kerfisins í pottum. Þetta er grundvallarnálgunin sem frumvarpið byggist á og ég tel að ekki þurfi að endurtaka þá vinnu. Þess tel ég ekki að þurfi.

Þetta er orðið viðfangsefni sem snýr að útfærslunni og það eru þrjú til fjögur stór lykilatriði sem hafa þar mest áhrif á. Það eru hlutir eins og lengd og endurnýjunarákvæði nýtingarsamninganna, það eru hlutföll milli samningshlutans og potta, það er upphæð veiðigjalds. Þessir þættir spila augljóslega saman því að allir hafa þeir tiltekin áhrif, rekstrarleg eða afkomuleg áhrif, eða varða starfsgrundvöllinn er greinin mun byggja á. Það þarf því að vega og meta allt saman og það er heildarútkoman sem ræður för.

Frumvarpið er hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og verður þar í sumar og fram á haust og fer út til umsagnar ef ég veit rétt. Úr þeim má þá vinna. Það held ég að sé augljóst næsta skref í þessu máli og þá eiga allir flokkar sjálfkrafa aðild að því í gegnum nefndina.