Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 17:49:35 (0)


139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski vandinn við þau frumvörp sem við ræðum hér, og þessa umræðu alla, að mörg okkar telja að ekki sé verið að fara eftir þeim megintillögum sem lagðar voru til í sáttanefndinni svokölluðu. Það er hægt að fullyrða að ramminn utan um sé hugsaður á svipaðan hátt en innihaldið byggist að litlu leyti á þeim tillögum, að mati þess sem hér stendur.

Ég er ekki að leggja til að sáttanefndin verði sett af stað aftur, ég er alls ekki að leggja slíkt til. Það er hins vegar mjög mikilvægt, ég hef reyndar saknað þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli ekki taka af skarið með það, að það komist á hreint hvort ríkisstjórninni eða hæstv. fjármálaráðherra hugnist samráð og samstarf um að finna varanlega lausn eða varanlegar breytingar sem breyta frumvörpunum og skapa sjávarútvegskerfi sem flestir geta sætt sig við.

Ég verð því miður að segja, frú forseti, að ég gat ekki skynjað það af andsvari hæstv. ráðherra að það væri tónninn sem ætti að gefa. Mér finnst það sorglegt ef svo er.