Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 19:04:39 (0)


139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Þrátt fyrir það sem stjórnarmeirihlutinn samþykkti áðan, að tekjur af veiðigjaldi skuli renna í ríkissjóð, er nú verið að greiða atkvæði og að mér sýnist að samþykkja greinina um að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli ráðstafa 15% tekna af veiðigjaldi til sveitarfélaga. Nánari útfærsla á þeirri ráðstöfun skal koma fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012. (Gripið fram í.) Já, koma fram eða skal heimilt.

Ég undirstrika að þetta sýnir enn og aftur hversu mikil della þetta frumvarp allt saman er, það er rauði þráðurinn í gegnum frumvarpið. Í ljósi þess að búið er að samþykkja að tekjur af veiðigjaldi skuli renna í ríkissjóð tel ég að einfaldlega hefði átt að setja punkt og þingið hefði ekki átt að segja neitt frekar um þetta.

Ég tel að það sé fjárlaganefndar þingsins og á endanum þingsins að ráðstafa tekjum í ríkissjóð. Þetta er röng leið. Þetta er vond leið. Ég efast um að hún standist stjórnarskrá eins og upphafleg var bent á. Ég segi því nei.