Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 11. júní 2011, kl. 19:16:38 (0)


139. löggjafarþing — 154. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Skaðinn sem hlýst af afgreiðslu þessa frumvarps hér er tvíþættur. Hann birtist annars vegar í því að það er verið að stórauka hina félagslegu potta og þar með auka vald hæstv. ráðherra til að hlutast til um það hvert heimildirnar rata og hver fær að veiða við Íslandsstrendur alveg óháð því kerfi sem við höfum verið með. Hins vegar liggur skaðinn í því að þrátt fyrir þessar breytingar er boðað áframhald á þessum aðgerðum með heildarendurskoðun fiskveiðistjórnarlaganna. Jafnvel þótt ríkisstjórninni takist að koma í gegn þessu frumvarpi, sem er alveg nógu skaðlegt eitt og sér og hefur fallið í mjög grýttan jarðveg hjá öllum umsagnaraðilum, munum við áfram búa við óvissu og við höfum fengið skilaboð frá ríkisstjórninni um að áfram verði haldið í sömu átt. Hvort tveggja er hrikalega (Forseti hringir.) skaðlegt fyrir allan íslenskan almenning sem á svo mikið undir því að hér sé í gildi skynsamleg löggjöf um stjórn fiskveiða en ekki svona della eins og hér er verið að innleiða.