Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Föstudaginn 02. september 2011, kl. 16:44:24 (0)


139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert ef þetta er sá skilningur sem við höfum á þessu. Ég skildi þetta þannig en það er nauðsynlegt að fá það staðfest hvort hlutirnir séu svona. Það er ágætt ef formaður nefndarinnar tímir hálfri mínútu af andsvari sínu á eftir til að útskýra hvort þetta sé með þessum hætti.

Þetta finnst mér, svo ég segi það nú bara, algjörlega galið, að hver sem er, jafnvel útlendingar, geti haft áhrif á það hvernig … (MÁ: Hvað segirðu?) Jafnvel erlendir aðilar, (MÁ: Jafnvel útlendingar.) útlendingar. (MÁ: Jafnvel svartir útlendingar.) Ég ætla að biðja hv. formann nefndarinnar að vera ekki svo dónalegur að gera lítið úr blökkumönnum, ekki ætla ég að gera það að minnsta kosti.

Að erlendir aðilar geti kært þessa framkvæmd, að hinir ágætu örfáu Kínverjar sem búa í Kína geti jafnvel kært framkvæmdir sem félagi þeirra ætlar að fara í hér, það er algjörlega galið. En það er kannski hluti af sókninni í Evrópusambandið að hafa það inni að kæran þurfi að vera á íslensku því að við vitum að öll gögn verða þýdd.