Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Föstudaginn 02. september 2011, kl. 16:51:57 (0)


139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fellst ekki á það sjónarmið hv. þingmanns að nefndirnar ákveði eitthvað fyrir Alþingi. Við erum að ræða nefndarálit frá hv. umhverfisnefnd og þar leggja menn fram ákveðin sjónarmið en sjónarmiðin geta verið allt önnur hjá meiri hluta Alþingis. Mér finnst því alveg sjálfgefið að ef hv. þingmaður hefur miklar athugasemdir við einhvern ákveðinn lið, t.d. hina miklu opnun á kæruheimildir, að um það verði flutt breytingartillaga frá þeim fulltrúum í umhverfisnefnd eða öðrum þingmönnum sem bent hafa á þetta, um að þetta ákvæði verði tekið burt og haft verði svipað fyrirkomulag og virðist vera í flestum löndum Evrópusambandsins.

Ég var með eina spurningu í viðbót, ég vil vita hvort það efni hafi verið rætt í nefndinni. Hér stendur að ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framkvæmd geti nefndin úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð.

Var það rætt í nefndinni og var nefndin búin að hugleiða hvernig hún ætlaði að innheimta t.d. hjá þeim tvö þúsund Kínverjum sem gerðu tilefnislausa athugasemd, eða hvernig menn ætla yfirleitt að framfylgja innheimtum á slíkum kærum þegar þær geta komið úr öllum heiminum?