Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Föstudaginn 02. september 2011, kl. 16:53:51 (0)


139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á því ef hann hefur skilið orð mín áðan í þá veru að ég teldi að nefndir gætu ákveðið eitthvað fyrir Alþingi. Það er langur vegur frá að ég sé þeirrar skoðunar og ef orð mín hafa skilist með þeim hætti biðst ég afsökunar á því. Það var alls ekki meiningin.

Við munum ræða og höfum raunar rætt, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, mögulegan flutning á breytingartillögu og það kemur þá fram við afgreiðslu þeirra mála. En ég vonast til að hv. þingmaður efist ekki um andstöðu okkar við ákvæðið eins og það er lagt upp hér. Að okkar mati er íslenskt stjórnkerfi á engan hátt í stakk búið til að takast á við opnun af því tagi sem lagt er til og við teljum það ekki ganga.

Varðandi svar við spurningu sem hv. þingmaður bar fram um kærur og innheimtu fyrir þær verð ég að leyfa mér að vísa til formanns nefndarinnar. Það er á ábyrgð meiri hluta nefndarinnar, hann leggur þetta fram. Mig minnir hins vegar að gjaldtaka fyrir kærur með þeim hætti sem hv. þingmaður lýsti áðan hafi verið felld brott þannig að hv. þingmaður þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvort þetta er innheimtanlegt eða ekki. Það ákvæði í frumvarpinu var fellt í burtu og ekki er gert ráð fyrir gjaldtöku í tengslum við kæruferli mála.