Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Föstudaginn 02. september 2011, kl. 18:35:44 (0)


139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að breytingartillaga komi fram ef nefndin endurskoðar þetta mál ekki milli 2. og 3. umr., ég held að það sé alveg ljóst.

Spurt var hvort ekki gæti orðið bakslag, það hafi hreinlega verið skotið yfir markið. Ég óttast að of langt sé gengið þarna og það geti komið málstaðnum í koll á endanum. Ég held að það sé betra að ganga fram með hófsemd þegar við erum að tala fyrir verndun og friðun umhverfisins, og passa það sem við viljum passa og viljum eiga. Ég hef aldrei verið talsmaður þess að gera slíkt með offorsi, ekkert fremur en að ganga fram með gröfur og skóflur og virkja allt sem hægt er að virkja. Mér finnst það algerlega galið, eins og mér finnst sumir tala, að það eigi bara að nýta allt sem hægt er að nýta. Það er ekki þannig. Við verðum að passa okkur þegar kemur að þessum hlutum.

Ég vonaði því að ákveðin sátt yrði um þessa verndar- og nýtingaráætlun en ég sé því miður ekki að svo verði.

Hvort þetta er einsdæmi í Evrópusambandinu? Miðað við það sem ég hef náð að lesa um þetta þá held ég að þetta sé einsdæmi en mér kann að skjátlast. Ég veit ýmislegt um Evrópusambandið en svona innarlega hef ég kannski ekki alveg komist.

Bráðabirgðaákvæði I, hvort mér finnist það eðlilegt? Mér finnst ekki eðlilegt að búið sé að úthluta þessu embætti. Mér þætti vænt um að heyra almennar skýringar á því af hverju það er. Það getur vel verið að það sé skýring á því. Ég hef ekki heyrt hana í dag, hún hefur alla vega farið fram hjá mér. En mér finnst þetta ekki ganga upp með þessum hætti að það sé búið að tilkynna hvernig þetta verður. Það kann vel að vera að málefnalegar ástæður séu að baki en við þurfum þá að heyra þær.