Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Föstudaginn 02. september 2011, kl. 18:39:09 (0)


139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er löngu komið í ljós að Íslendingar eru kaþólskari en páfinn þegar kemur að því að innleiða regluverk Evrópusambandsins og fylgja því eftir, sem er að mörgu leyti miður því að margt af því sem þaðan kemur er algerlega dæmalaust bull.

Varðandi ákvæði til bráðabirgða og umræddan starfsmann þá er hér nefndur ákveðinn maður sem ég hef ekki hugmynd um hver er, enda skiptir það engu máli. Það skiptir engu máli hvort það er Jón Jónsson eða einhver annar sem er í þessu embætti. Það er mjög sérkennilegt að þetta sé sett inn í lög með þessum hætti. En ég er sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að þetta þarf að ræða. Það þarf að komast til botns í því hvaða rök eru þarna að baki. Það þarf þá líka að ræða af hverju þetta er sett fram með þeim hætti að forstöðumaðurinn og formaðurinn sé þessi ákveðni aðili og allt það. Þetta þarf allt að ræða að mínu viti og við eigum að gera það núna á milli umræðna.