Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Föstudaginn 02. september 2011, kl. 19:05:41 (0)


139. löggjafarþing — 156. fundur,  2. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[19:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég nefndi það í ræðu minni áðan að reynsla mín af kerfinu verandi í sveitarstjórn nokkuð lengi er sú að það er býsna svifaseint og tekur langan tíma oft á tíðum án þess í rauninni að skila endilega annarri niðurstöðu eða betri en lagt var af stað með í upphafi. Þar af leiðandi tel ég mikilvægt að við reynum að finna leiðir til að gera kerfið skilvirkara. Ég ítreka að ég vil ekki gefa neinn afslátt af því, við eigum ekki að fórna kröfum eða neinu slíku, við eigum að reyna að horfa á þessa þætti: Hvar eru tapparnir? Getum við liðkað til án þess að slá af þeim kröfum sem við viljum gera?

Ég nefndi áðan flugvelli og stofnbrautir og kannski meira til gamans en þó í alvöru, því að samkvæmt frumvarpinu, og eins og ég skil frumvarpið og þá liði sem vísað er til, er þetta meðal framkvæmda sem falla undir 4. gr. og hægt er að kæra. Ef farið verður í það að byggja flugvöll þar sem flugbraut er lengri en 2.100 metrar geta allir kært það í þessu ferli.

Þetta vekur mann til umhugsunar um hvort þetta sé (MÁ: Maður að segja sig úr Framsóknarflokknum.) — var það ekki nýskráning? — nógu vel unnið. Ég vil hvetja til þess, af því að við erum nú að gantast hér, ég og formaður nefndarinnar, að þessi grein verði skoðuð og hvort hugsanlega sé hægt að ná einhverri sátt með að mæta (Forseti hringir.) þeim sem vilja víkka þetta út á einhvern hátt. Ég lýsi mig alla vega reiðubúinn til að skoða það.