Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Mánudaginn 05. september 2011, kl. 16:14:32 (0)


139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ábendingarnar og þessar spurningar. Mig langar í upphafi að benda á að það eru einungis þrjár stoðir sem hægt er að kæra, þær eru á bls. 6 og 7 í frumvarpinu. Í fyrsta lagi ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í öðru lagi ákvarðanir ýmissa stjórnvalda um að leyfa framkvæmdir sem eru matsskyldar, vegagerð fellur ekki þar undir, við erum að tala um þetta stóra samhengi. Og í þriðja lagi allt varðandi erfðabreyttar lífverur og sleppingu.

Það breytir því ekki að með þessu er verið að blanda erlendum aðilum, sem hafa ekki aðild að málum hér á landi, inn í innanríkismál fullvalda þjóðar. Ég spyr: Hvað á það að þýða og hvað er verið að fara með því að við ein þjóða Evrópu og ein þjóða þeirra sem standa að Árósasamningnum göngum svona langt? Engin þjóð hefur farið eins langt með þessa opnu aðild og lagt er til í þessu frumvarpi. En það kemur líka fram í nefndaráliti meiri hlutans að við séum svo frjálslynd og opin fyrir nýjungum og séum svo fámenn að það sé svo auðvelt að breyta okkar lagakúltúr að þetta sé allt í lagi, sem eru náttúrlega fáheyrð rök. Svona er þetta allt.

Að sjálfsögðu kemur stjórnsýslan til með að drukkna. Þingmaðurinn fór vel yfir það að ekki er einu sinni hægt að standa við tímamörk nú þegar í þeim kærumálum sem liggja fyrir kærunefndum. Úrskurðarfresturinn var lengdur í sex mánuði einhvern tíma á síðasta hausti til að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála gæti staðið við sín tímamörk. En hvað verður þegar þetta kemur til, þegar búið er að renna þessum tveimur nefndum saman í nýja úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála? Hér fer náttúrlega allt á hliðina. Íslensk stjórnsýsla kemur ekki til með að ráða við þetta þegar erlendir aðilar fara að hella hér inn kærum til að stöðva (Forseti hringir.) framkvæmdir á okkar eyju. Við erum fullvalda og sjálfstæð. Þetta er á skjön við réttarríkið og sjálfstæði okkar á þessari eyju.