Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Mánudaginn 05. september 2011, kl. 16:16:56 (0)


139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mig langar að spyrja hv. þingmann um það hvort þessi umræða hafi farið fram í hv. umhverfisnefnd þar sem maður hefur áhyggjur af því að hægt sé að drekkja stjórnsýslunni hér með því að leyfa nánast öllum að kæra. Við þekkjum hvernig þessi samtök vinna, við þekkjum það vel. Þau senda kannski inn nokkur þúsund kærur þess vegna, við erum ekki að tala um tugi heldur hundruð eða þúsundir. Síðan á einhver úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að fjalla um þær. Það er einhvern veginn fyrir séð að ef slíkt gerist geti menn drekkt þeirri nefnd í kærum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um hvort ekki hafi verið fjallað um það í hv. umhverfisnefnd að auka þyrfti fjármagn til úrskurðarnefndarinnar, fjölga starfsfólki. Það er alveg tilgangslaust að hafa einhver tímamörk ef vonlaust er að standa við þau.

Hv. þingmaður kom líka inn á það í ræðu sinni hvernig önnur lönd hafi gert þetta. Hún nefndi að Portúgal hafi farið nánast þessa leið, kannski ekki alveg alla leið, en Norðurlöndin hafi ekki gert það. Mér hefur verið sagt að Hollendingar hafi farið lengra og hafi stigið skref til baka. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hv. umhverfisnefnd hafi fjallað um þetta í meðförum málsins, þessa frumvarps, og leitað sér upplýsinga frá öðrum löndum um það hvers vegna menn hafi ekki tekið þetta skref, hver hættan sé, og hvort það sé fyrirsjáanlegt að það sem við hv. þingmaður deilum áhyggjum af muni gerast með því að opna þetta svona.

Ég tek undir með hv. þingmanni að þau rök sem koma fram hjá meiri hlutanum, að við séum svo fámenn og opin og auðvelt breyta hér, eru náttúrlega algjörlega handónýt og varla vert að ræða þau hér. Spurningin er fyrst og fremst sú: Hvernig var umræðan, lagðist nefndin í það að skoða þetta, sérstaklega hver væri reynsla annarra af því og hvers vegna menn hefðu ekki stigið skrefið (Forseti hringir.) eins langt og lagt er til hér?