Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Mánudaginn 05. september 2011, kl. 16:19:14 (0)


139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta var þó nokkuð rætt í nefndinni. Það er örlítið farið að snjóa yfir þetta hjá mér því að það er svo langt síðan við ræddum þetta í umhverfisnefnd sem sýnir hvað það er gallað að hafa septemberþing því að það líður langur tími á milli þar sem nefndirnar starfa ekki.

Það var mjög erfitt að fá upplýsingar frá umhverfisráðuneytinu um þetta allt. Eins og ég fór yfir í framsöguræðu minni var mjög djúpt á því að fá upplýsingar um að sú umræða hefði farið fram hjá frumvarpshöfundum að tekin hefði verið meðvituð ákvörðun um að ef aðildin væri svona opin yrði þetta opið fyrir heimsbyggðina alla. Þær upplýsingar komu mjög seint fram að frumvarpshöfundar legðu nákvæmlega þann skilning í frumvarpið. Upphaflega var ekki lagt upp með það að útskýra fyrir umhverfisnefnd að það væri með þeim hætti. Auðvitað eiga nefndarmenn í nefndum þingsins að spyrja og fá upplýsingar því að þetta leit mjög sakleysislega út í upphafi eins og má sjá á frumvarpstextanum og ekki beint sagt, hvorki í greinargerð né frumvarpstextanum sjálfum, hvað þessi opna aðild þýðir. En þær upplýsingar komu fram fyrir rest.

Varðandi samanburð við aðrar þjóðir var á lokafundum umhverfisnefndar beðið um upplýsingar og samanburð af þessu tagi. Umhverfisnefnd fékk þær og það er lítillega minnst á það í nefndaráliti meiri hlutans hvernig þetta er hjá öðrum þjóðum. Það er rétt að Portúgal gengur lengst og kemst næst því að vera með aðildina svona opna eins og lagt er til í þessu frumvarpi, samt er íslenska leiðin enn opnari en í Portúgal. Þau viðvörunarorð okkar í minni hlutanum í umhverfisnefnd að Hollendingar hefðu farið þess leið og dregið sig svo út úr þessu, farið til baka vegna fjölda kærumála sem bárust á sviði umhverfisréttar, höfðu ekkert að segja. En við eigum jú að læra af reynslu annarra þjóða, er það ekki?