Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Mánudaginn 05. september 2011, kl. 16:21:34 (0)


139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[16:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða mál sem felur í sér gríðarlega miklar breytingar að mínu mati á því með hvaða hætti við nálgumst aðild að kærumálum innan stjórnsýslunnar. Ég tel að þegar farið er í svona grundvallarbreytingar verði það ekki gert nema að mjög vel ígrunduðu máli. Slíkar breytingar þurfa að vera vel rökstuddar og helst þurfa þær að fela í sér nána athugun á slíkri framkvæmd annarra þjóða og best væri ef hægt væri að læra af reynslu annarra þjóða í þeim efnum. Í þessu máli virðist slíku ekki vera til að dreifa. Miðað við þær lýsingar sem hér hafa heyrst í ræðum hv. þingmanna sem sitja í umhverfisnefnd hefur ekki verið farið mjög djúpt í þessa þætti. Þykir mér það miður og mjög einkennilegt af því að ég get ekki séð að það sé nauðsyn á miklum asa við afgreiðslu þessa máls.

Frú forseti. Málið felur í sér tvær aðalbreytingar. Annars vegar er verið að skipa nýja úrskurðarnefnd sem er í sjálfu sér ágætt en að sjálfsögðu þarf að tryggja henni þær starfsaðstæður að hún geti sinnt hlutverki sínu. Og hins vegar er verið að breyta í grundvallaratriðum, og á mjög róttækan hátt að mínu mati, hverjir það eru sem geta kært ákvarðanir stjórnvalda. Í þessum málum er um að ræða mjög flókið ferli sem þarf að fara fram áður en gefin eru út framkvæmdaleyfi og farið er í framkvæmdina sjálfa. Á fjölmörgum stigum gefst aðilum máls sem og öðrum tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og þess vegna sé ég ekki alveg rökstuðninginn fyrir því að opna þurfi með þessum hætti á aðildina fyrir kærunefnd.

Mér þykir líka mjög athygli vert að lesa umsögn fjármálaráðuneytisins um þetta frumvarp. Þar er augljóst að ráðuneytið gerir sér grein fyrir að verksviðið sem hin nýja úrskurðarnefnd mun hafa á sínum snærum verður mun umfangsmeira. Menn renna að vísu blint í sjóinn þegar þeir reyna að áætla fjölda kærumála en umhverfisráðuneytið áætlar að þetta muni leiða til a.m.k. 30% fjölgunar mála. Þess vegna er ljóst að það þarf að spýta verulega í varðandi fjárveitingar. Það kemur fram í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram með þessu máli að málsmeðferðartíminn hjá þeim tveimur úrskurðarnefndum sem nú starfa og verða að einni nýrri úrskurðarnefnd er mjög langur miðað við það sem eðlilegt ætti að teljast innan stjórnsýslunnar. Það er væntanlega vegna þess að núna er aðbúnaður þessara nefnda ekki nægjanlega góður og málin að sjálfsögðu flókin. En í nefndaráliti minni hlutans kemur fram að það hafi tekið að meðaltali 15 og hálfan mánuð að kveða upp úrskurð í þeim 72 málum sem úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál hafði á sínum snærum — það er langur tími — og hafi tekið úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir að meðaltali 40 vikur að kveða upp úrskurði sína. Þannig að við sjáum fram á að stjórnsýslan tekur langan tíma.

Það er því ljóst að spýta þarf verulega í ef standa á almennilega að þessu og ef opna á þetta þannig að allir íbúar alheimsins geti sent inn kærur til úrskurðarnefndarinnar. Þar sem ekki er sterkari rökstuðningur fyrir þessari opnun en raun ber vitni sé ég ekki að það sé rétt eða einfaldlega nokkurt vit í því að opna þetta með þessum hætti.

Það er áhugavert að lesa umsagnir sem hafa borist í sambandi við þetta mál, m.a. umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar kemur fram að það sé í rauninni verið að marka sjálfstæða stefnu sem veitir almenningi víðtækari rétt en víðast hvar og umfram það sem leiðir af ákvæðum Árósasamningsins.

Hvers vegna erum við að því? Ég sé þess ekki stað í áliti meiri hluta nefndarinnar hvers vegna erum við að ganga mun lengra en aðrar þjóðir í innleiðingunni. Ég sé ekki rökstuðninginn, sérstaklega ekki þegar við erum með þetta langa og viðamikla ferli. Ég hvet alla áhugamenn sem fylgjast með þessari umræðu að skoða skýringamyndina í fylgiskjali með nefndaráliti minni hlutans. Ekkert Norðurlandanna hefur farið þá leið að opna fyrir aðild allra að stjórnsýslukærum. Hér er um stefnubreytingu að ræða. Við erum að víkja hér verulega langt frá meginreglum íslensks réttarfars og þegar það er gert með þessum hætti hefði maður haldið, frú forseti, að rökstuðningurinn væri ítarlegur, að aðdragandinn að slíkri ákvörðun væri vandaður og umræðan hefði farið fram. Ég sé því miður ekki, frú forseti, merki um þau vönduðu vinnubrögð sem ætla mætti í meðferð þessa máls. Það er gengið svo langt að kæruaðild er opnuð öllum hvað ákveðnar ákvarðanir varðar án nokkurra takmarkana. Ekki er gert ráð fyrir að viðkomandi hafi lögmætra hagsmuna að gæta, það getur einfaldlega hver sem er kært.

Mér er spurn hvort framkvæmdin í Portúgal hafi verið skoðuð að einhverju marki. Það kemur fram í gögnum málsins að það sé líklega bara Portúgal sem hafi gengið það langt í innleiðingu að líkja megi við þá sem við horfum á hér og að Holland hafi vikið frá þessari braut. Hvers vegna? Það kemur ekki fram. Þegar menn fara í svona róttækar breytingar hljótum við að vilja fá svör við þeim spurningum í þinginu af hálfu meiri hlutans í umhverfisnefnd hvers vegna við erum að fara þessa leið.

Það kostar gríðarlega mikið fyrir íslenska skattgreiðendur að setja kæruferlið af stað. Ég sé ekki alveg tilganginn með því að opna kæruleiðina þar sem viðkomandi aðilar geta lagt fram skoðanir sínar fyrr í ferlinu. Það er ekki einu sinni gerð krafa um að þeir aðilar sem leggja fram kæru hafi komið sjónarmiðum sínum að á fyrra stjórnsýslustigi. Það er afskaplega einkennilegt.

Framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum ganga í gegnum langt ferli. Þar er innifalið m.a. kynning og samráð á undirbúningstímanum. Það er ljóst að þar er almenningi tryggð aðkoma að ákvörðunum sem þessum á því stigi málsins. Hvers vegna telja fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna þá nauðsynlegt að opna á þessa kæruheimild?

Málsmeðferðin verður gríðarlega löng og þykir mörgum samt nóg um það fyrirkomulag sem við höfum nú þegar og hve málsmeðferð í málum sem þessum getur dregist. Ég sé því miður ekki, frú forseti, að reynt sé að takmarka þann tíma eða málsmeðferðina nægjanlega heldur þrátt fyrir að verið sé að opna þessa kæruheimild. Ef menn eru á þeirri skoðun ættu þeir að reyna að stemma stigu við því að málsmeðferðin geti dregist úr hömlu nema að sjálfsögðu að aðaltilgangurinn með þessu öllu sé að drepa henni á dreif og reyna að tefja fyrir framkvæmdum með þessu frumvarpi.

Frú forseti. Þetta er það sem ég hef um frumvarpið að segja. Ég styð það ekki en vek þó athygli á breytingartillögu minni hlutans sem lögð var fram í dag og er til þess fallin að reyna að gera þetta aðeins skárra.