Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Mánudaginn 05. september 2011, kl. 17:33:09 (0)


139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[17:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið. Fyrst um spurninguna hvort ég mundi styðja frumvarpið ef breytingartillagan yrði samþykkt. Ég mundi orða það þannig að ég styddi það alveg örugglega ekki eins og það er núna. En ég mundi hugsa mig vandlega um og teldi jafnvel töluverðar líkur á að ég mundi gera það, því að það mundi koma til móts við það sem gæti, eins og stundum er sagt, dottið milli skips og bryggju eða milli þilja. Það mundi gera það að verkum að einmitt þeir aðilar sem láta sig umhverfið miklu varða gætu komið inn í kæruferli án þess að vera beinir hagsmunaaðilar að máli og ég teldi skynsamlegra að gera það með þeim hætti en að opna á þá vitleysu sem hér er.

Hv. þingmaður spurði mig líka hvort ég teldi eðlilegt að viðkomandi aðila, eins og kemur fram í ákvæði til bráðabirgða I um starfsmenn úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, skuli boðið starf hjá nýju nefndinni. Það er ekki svo að ég vilji persónugera þetta við þann einstakling en þetta er hins vegar umræða sem við höfum átt hér oft og tíðum, til að mynda við sameiningu margra annarra stofnana eða ráðuneyta. Þetta kemur einmitt fram þegar fara á að hagræða í rekstrinum sem ég stórefast um, enda sjáum við það í fjárlögunum t.d. með aðalskrifstofur ráðuneytanna að þær taka ekki á sig sama niðurskurð og aðrir. Það er bara staðreynd. Þegar menn sameina til að mynda tvö ráðuneyti í eitt er gerð minni aðhaldskrafa á aðalskrifstofur þeirra ráðuneyta en annarra jafnvel. Og þó að gefin sé út sú yfirlýsing frá oddvitum ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, að það skuli gert þá er bara ekkert farið eftir því. Samt eru fjárlögin samþykkt með þeim hætti.

Þetta er svipað mál og við höfum rætt áður. Menn geta ekki hagrætt í ríkisrekstrinum ef steypa á saman stofnunum þar sem allir hafa sömu laun, sömu kjör og sömu starfsréttindi. Svo er þetta líka spurningin um það, sem ég kem kannski betur að og svara á eftir, að þetta gefur hugsanlega ekki öðrum möguleika (Forseti hringir.) við þessar aðstæður að sækja um þessi störf sem eru mikils metin í dag.