Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Mánudaginn 05. september 2011, kl. 18:06:21 (0)


139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og yfirferð á þessu máli. Hv. þingmaður spurði í ræðu sinni hver væri í raun orsökin fyrir því að menn færu þessa leið og benti á það sem kemur greinilega fram í nefndaráliti minni hlutans, hv. þingmanna Kristjáns Þórs Júlíussonar og Birgis Ármannssonar, að menn hafi áhyggjur af því að verið sé að drekkja kerfinu eða stjórnsýslunni. Það kemur fram í nefndarálitinu sem hv. þingmaður rifjaði hér upp að úrskurðir hafi tekið allt að 15 og hálfan mánuð, að meðaltali 40 vikur, og nefnir að hann þekki sjálfur dæmi um að það hafi tekið mörg ár.

Því vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort honum finnist það ekki sérkennilegt, sérstaklega í ljósi umsagnar frá fjárlagaskrifstofunni þar sem er í raun og veru viðurkennt að menn átti sig ekki á hvað sé í vændum, hvort um þúsundir eða jafnvel tugþúsundir kæra verði að ræða. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því og deilir þeim með mér að svo geti farið að ekki verði nokkur leið að fara eftir þessu og úrskurða svo eitthvert vit sé í?

Mig langar líka að minnast á, af því að það kom fram hér á undan þegar hv. formaður umhverfisnefndar var í andsvörum og talaði um að ekki væri neitt niðamyrkur í Portúgal, að ég held að það sé ekki niðamyrkur í þeim löndum sem hafa ekki gengið jafnlangt og hér er lagt til í innleiðingu eða fullgildingu Árósasamningsins.

Ég vil líka vekja athygli á því, virðulegi forseti, að í þessari umræðu sem hefur staðið í tvo daga eða part úr tveimur dögum hefur enginn frá Vinstri grænum tekið þátt í umræðunni. (REÁ: Hvar eru þeir?) Enginn. (MÁ: Ég, fulltrúi meiri hlutans.) Nei, hv. þm. Mörður Árnason er ekki enn genginn í Vinstri græna svo ég viti til, hann er með merki Samfylkingarinnar í barmi alla vega enn þá. Það er einungis hv. þm. Mörður Árnason sem hefur verið hér til að veita andsvör og verja þetta mál. Hvar er nú öll (Forseti hringir.) sannfæringin fyrir því að koma málinu áfram því að þeir hafa ekki einu sinni verið í þingsal?