Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Mánudaginn 05. september 2011, kl. 18:08:43 (0)


139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[18:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að það að setja á laggirnar nýja úrskurðarnefnd á grundvelli þeirra upplýsinga að fyrri nefndir, sem voru þó tvær með sérþekkingu, hafi ekki ráðið við að svara þeim kærum sem þangað voru komnar nægilega fljótt samkvæmt því sem við teljum vera eðlilega stjórnsýslu er mjög sérkennilegt. Og að um leið og menn setja saman nýja nefnd, stærri, þyngri, og hugsanlega ekki með sömu sérþekkingu, hún þarf að dekka miklu víðara svið, ætli menn að opna á þann möguleika að þangað hrúgist inn kærur þess vegna í hundraðavís eða þúsundavís og geti þannig drekkt kerfinu. Við þekkjum það öll og fréttum af því reglulega að hakkarar séu að ráðast á tölvufyrirtæki, meira að segja frá tölvufyrirtækjunum sjálfum, til þess eins að reyna að skemma og drekkja kerfinu. Og við þekkjum það, þingmenn, þegar heit mál eru til umræðu í þinginu að þá fáum við tölvupósta í þúsundavís sem gerir það að verkum að tölvupóstkerfið virkar ekki á þeim tíma. Ég veit þess dæmi að í sambandi við athugasemdir í skipulagsmálum hafa menn sent inn kærur í hundraðavís, tugavís, til þess eins að reyna að hafa áhrif á að stjórnsýslan lamist. Það hlýtur að vera eitt af því sem menn óttast þegar svona er lagt til, það er ekki endilega meðvitaður tilgangur frumvarpsins en hins vegar gæti það ómeðvitað klárlega orðið afleiðing þess.