Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Þriðjudaginn 06. september 2011, kl. 11:09:36 (0)


139. löggjafarþing — 158. fundur,  6. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[11:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við greiðum atkvæði við lok 2. umr. um mikilvæg frumvörp sem hafa þann tilgang að leiða í lög þriðja og síðasta þátt Árósasamninganna sem við skrifuðum undir árið 1998. Hann mætti stöðugri andstöðu í þinginu, a.m.k. fyrir hrun, og ég fagna því að þeirri andstöðu linni nú.

Til að þetta frumvarp eigi greiðari leið í gegnum þingið hefur meiri hluti umhverfisnefndar, og þó ekki alveg allir, fallist á að gera málamiðlun við minni hluta nefndarinnar og þingmenn í salnum úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um að ekki verði að sinni leidd í lög reglan um almenna málskotsaðild í mikilvægum málum, actio popularis. Það þýðir ekki að við höfum fallið frá skoðun okkar í þessu máli en við teljum mikilvægara að festa árangur Árósasamninganna í lög en að standa á þessu máli (Forseti hringir.) og munum því samþykkja þá breytingartillögu sem hér um ræðir.