Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 11:27:48 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og vitum hefur krónan fallið gríðarlega mikið frá efnahagshruninu árið 2008. Það er í sjálfu sér ekki undarlegt en í ljósi stöðu gjaldmiðilsins í dag og þess að nú ætla menn að festa það í lög að höftin verði viðvarandi fram til áramóta 2015/2016, má þá ekki gera ráð fyrir því að gengi krónunnar verði enn veikara um áramótin 2015/2016? Höft kalla í eðli sínu fram veikingu á gjaldmiðlinum og það væri fróðlegt að heyra hv. þingmann leggja mat á það, ef við fylgjum óbreyttri þeirri efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið, hver staða gjaldmiðilsins verður mögulega undir lok þessa tímabils.

Nú eru aðilar í atvinnulífinu farnir að venjast þessum höftum, menn finna sér því miður alltaf einhverjar glufur til að komast fram hjá þeim, og nú heyrum við sögur um að heilu atvinnugreinarnar auki umtalsvert umsvif sín og starfsemi utan marka haftanna, þ.e. á erlendri grundu. Verðmætaaukningin á sér þá stað þar, þ.e. fyrir utan hagkerfi okkar, sem leiðir til minni umsvifa hér og minni tekna í okkar hagkerfi. Það er vissulega mikið áhyggjuefni og það væri fróðlegt að heyra hv. þingmann lýsa því hér hvort hann hafi ekki áhyggjur af því, líkt og ég, að menn muni í síauknum mæli reyna að koma sér fyrir utan kerfisins, utan haftanna. Þar af leiðandi verður þá minna til skiptanna fyrir ríkissjóð og samfélagið og minni verðmætasköpun sem við hljótum öll að stefna að því að auka í kjölfar hrunsins í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt mál.