Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 11:34:31 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð alltaf stoltari og stoltari af því hvað minn flokkur hefur gífurleg og ægileg áhrif löngu eftir að hann er hættur að stjórna. Hann virðist enn þá hafa áhrif. Það eru komin þrjú ár frá hruni og sú hæstv. ríkisstjórn sem nú starfar er búin að starfa í tvö ár þannig að það er dálítið undarlegt að vera endalaust að kenna Sjálfstæðisflokknum um það sem menn eru að gera og búnir að vera að gera undanfarin tvö árin.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að einhver framtíðarsýn sé í samningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann var bara þriggja ára neyðaráætlun og henni er lokið. Svo er spurningin: Hver er framtíðarsýnin eftir það? Ég get sagt hv. þingmanni hvernig ég sé framtíðarsýnina. Það eru tvær sýnir: Annar flokkurinn vill inn í Evrópusambandið og ekkert annað. Inn í Evrópusambandið skal Ísland fara og ekkert annað, það er framtíðarsýnin. Ekki er hægt að tala um neitt annað en Evrópusambandið, það er alveg sama hvað maður talar um, hvort sem það er um veðrið, ferðaþjónustu, gjaldeyri eða hvað það nú er, það er ekkert nema Evrópusambandið. Framtíðarsýn hins flokksins er stöðnun og kyrrstaða, skattlagning og meiri skattlagning og enn meiri skattlagning og ofan á allt saman ætlar hann að skera niður þegar fólkið fer úr því að vera í opinberri þjónustu og yfir á atvinnuleysisskrá af því að það er enga atvinnu að hafa. Hann virðist vera á móti framkvæmdum yfirleitt, af öllum toga. Það á bara alltaf að gera eitthvað annað. Og einmitt þegar einhver maður kemur og ætlar að gera eitthvað annað, byggja fimm stjörnu hótel uppi í eyðimörk, er það ekki nógu gott heldur. (Gripið fram í.) Framtíðarsýn þessara flokka er tvískipt, þeir ætla að fara í tvær áttir og þeir eru meira að segja ekki sammála um að ganga í Evrópusambandið, ég hef heyrt suma ráðherra vera á móti því. Þetta er náttúrlega ekki framtíðarsýn fyrir þjóðina í heild sinni. Við þurfum að mynda sameiginlega framtíðarsýn, allir Íslendingar, og stefna þangað. Og það er að sjálfsögðu alröng aðferðafræði að stefna í tvær áttir.